Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skjálftar við Grímsey og gos í Geldingadölum

Gos byrjað aftur 2. júlí 2021.
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Svolítil skjálftahrina varð austur og aust-suðaustur af Grímsey í nótt, en engar tilkynngar bárust þó um að hennar hefði orðið vart í byggð. Gosið í Geldingadölum hélt uppteknum hætti, mögulega af eilítið meiri krafti en í gær.

 

Tæplega tuttugu jarðskjálftar urðu austur og aust-suðaustur af Grímsey í nótt. Sá stærsti þeirra varð laust eftir þrjú og mældist 3,0 að stærð. Fjórir til viðbótar voru á bilinu 2,3 -- 2,9 en aðrir voru minni. Engar spurnir hafa borist af því að fólk hafi fundið fyrir þessum hræringum, sem Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir alvanalegar þar nyrðra. „Svona hrinur verða alltaf af og til á þessum slóðum," segir Böðvar, „og ekkert óvanalegt við það." 

Aðspurður um gosið í Geldingadölum segir Böðvar það ganga nokkurn veginn sinn vanagang, með mislöngum hléum á milli. Hann segir svolítið minni kraft hafa verið í því þegar það tók sig upp á ný í gærmorgun, en í nótt hafi að líkindum færst örlítið meiri kraftur í það. Þó sé erfitt að fullyrða nokkuð um það, þar sem lítið hafi sést til gossins í nótt. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV