Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forsetinn brýnir fyrir ríkisstjórn að hlusta á vísindin

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forseti Íslands brýndi fyrir ríkisstjórninni á ríkisráðsfundi í dag að fara að tillögum sóttvarnasérfræðinga og sér kæmi í opna skjöldi ef það væri ekki gert. Það allra versta sem gæti gerst núna væri að ala á óeiningu og missa samstöðuna.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hlupu í gegnum rigningaskúr inn á Bessastaði í morgun á reglubundinn ríkisráðsfund þar sem forseti Íslands staðfesti lög sem samþykkt höfðu verið á Alþingi. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir það vonbrigði að Ísland sé orðið rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. 

„Já, að sjálfsögðu eru það vonbrigði. Það liggur í augum uppi að við hefðum kosið að hafa annan lit á landinu og stöðuna betri en hún er núna. En við ráðum ekki við þá stöðu sem núna er uppi. Það sem við getum gert er að bæta hana sem best við getum. Ég held að fyrir okkur sem einstaklinga skipti mestu að við sinnum hvert og eitt  okkar eigin sóttvörnum. Sprittum hendum, hugum að fjarlægðartakmörkunun og fylgjum þeim tilmælum sem við sjáum að eru skynsamleg,“ segir Guðni. 

En hvað með ráðamenn ríkisstjórnarinnar, er verið að vernda þjóðina nægilega fyrir farsóttinni?

„Ég legg auðvitað ekki mat á það. Það er ekki hluti af mínum starfsskyldum hér á Bessastöðum. Ég get hins vegar endurtekið það sem ég sagði á ríkisráðsfundi hér áðan: Við hér höfum blessunarlega notið þess að ráðamenn hafa tekið þann pól í hæðina að hlusta á ráð og tillögur okkar færasta fólks á sviði sóttvarna og sjúkdóma og það kæmi mér í opna skjöldu ef horfið yrði af þeirri braut,“ segir Guðni.

Þau hafa ekki alveg fylgt, eins og með tveggja metra reglu og skimun bólusettra á landamærum. Það hafa verið tilmæli sem ekki hefur verið fylgt. Hvernig líst þér á það?

„Ja, þeirra er ábyrgðin og það þarf að vega og meta hverjar aðgerðir fyrir sig rétt eins og okkar ágæti sóttvarnalæknir hefur minnst á,“ segir Guðni. Og bætir við:

„Sérstaklega núna þegar við erum í miðjum klíðum að glíma við þennan faraldur, þá væri það nú allra versta ef við færum að ala á óeiningu og missa þann mátt sem hefur fleytt okkur svo vel áfram í þessum brimskafli öllum, sem er máttur samstöðunnar, máttur samkenndarinnar og máttur vísindanna og þekkingarinnar,“ segir Guðni.