Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjölga á næturvöktum slysadeildar út af rafskutluslysum

05.08.2021 - 06:20
Erlent · Noregur · Osló · Rafskutlur · Rafskútur · Evrópa
epa07553809 E-scooters are on dispaly at a shop in Garmisch-Partenkirchen, Germany, 07 May 2019. Germany is currently debating legislation concerning the use of  e-scooters in city traffic.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnendur háskólasjúkrahússins í Osló hafa fjölgað starfsfólki helgarnæturvöktum á slysadeild spítalans vegna fjölda slysa á svokölluðum rafskútum eða -skutlum. Einum lækni og einum hjúkrunarfræðingi hefur verið aukið við næturvaktina um helgar, beinlínis vegna fjölgunar slysa á þessum farartækjum á þessum tíma.

Þetta kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins, NRK. „Það hefur verið glimrandi sumarveður og afar annasamur júlímánuður á slysadeildinni í Osló,“ segir yfirlæknirinn Knut Melhuus. Hann segir að slys í nýliðnum júlí hafi verið 16 prósentum fleiri en í júlí í fyrra. Skýringanna á þessu er sem fyrr segir einkum og aðallega að leita í fjölgun slysa á rafskutlum að næturlagi um helgar.

Skammt er síðan borgaryfirvöld ákváðu að fækka rafskutlum á götum norsku höfuðborgarinnar um ríflega 2/3, eftir að skoðanakönnun leiddi í ljós að mikill meirihuti borgarbúa var þeirrar skoðunar að þau væru allt of mörg og mjög til ama.