Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

151 smit í gær

05.08.2021 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Búið er að greina 151 smit hjá þeim sem mættu í sýnatöku í gær. Frá upphafi faraldursins hafa mest greinst 154 smit á einum degi. Undanfarið hafa smittölur oft hækkað á öðrum degi, þegar klárað hefur verið að yfirfara sýni, því gæti tala gærdagsins enn átt eftir að hækka. Eitt smit greindist á landamærunum og beðið er niðurstöðu mótefnamælingar úr tveimur.

Af þeim sem greindust með covid í gær eru 55 óbólusettir. Það hefur ekki gerst áður að svo margir óbólusettir greinist með covid á einum degi. 94 voru fullbólusettir.

Nærri helmingur smitaðra var í sóttkví, 45 prósent.

3,84 prósent þeirra sem komu í einkennasýnatöku greindust með covid. Það hlutfall hefur undanfarið verið á bilinu 3,27 til 4,99 prósent með einni undantekningu þegar hlutfallið var lægra. Ríflega fimm þúsund sýni voru tekin í gær.

Átján eru nú á sjúkrahúsi samkvæmt tölum almannavarna sem birtar voru á ellefta tímanum. Það er tveimur fleira en í gær. Fólki í einangrun vegna covid-smits hefur fjölgað úr 1.329 í 1.388. Nú eru 1.988 í sóttkví en voru 1.941 í gær. 

Nýgengi smita innanlands er komið í 414,5 á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu vikurnar. Í gær var nýgengið 394,6. Nýgengið á landamærunum fer úr 4,4 í 4,6.

Leiðrétt misritun um nýgengi á landamærunum.