Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrennt særðist alvarlega í skotárás á Skáni

04.08.2021 - 00:54
Mynd með færslu
 Mynd: Salah Saleh - SVT
Þrennt særðist alvarlega í skotárás í Kristianstad á Skáni síðdegis á þriðjudag. Þrír menn hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins, grunaðir um morðtilraun. Tveir karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri og ein kona á sjötugsaldri særðust í árásinni og voru flutt á aðalsjúkrahúsið í Kristianstad.

Sænska ríkissjónvarpið SVT hefur eftir lögreglu að þau séu öll alvarlega særð en ekkert þeirra þó í lífshættu. Fólkið var skotið utan við verslunarmiðstöð í bænum um klukkan sextán að staðartíma.

Þremenningarnir voru handteknir nokkrum tímum síðar og SVT hefur heimildir fyrir því þeir séu allir á unglingsaldri. Lögregla hefur þó ekki viljað staðfesta að svo sé. Calle Persson, upplýsingafulltrúi Skánarlögreglunnar, tekur fram að rannsakendur einblíni ekki á þá þrjá sem þegar hafa verið handteknir og útiloki ekki að fleiri séu viðriðnir málið. Ekki er enn vitað hvort einhver tengsl séu á milli hinna særðu, né hvort og þá hvernig þau tengjast árásarmönnunum.

Annar dagurinn í röð sem skot glymja í Kristianstad

Lögregla hefur verið með mikinn viðbúnað við verslunarmiðstöðina og næsta nágrenni í allan dag. Skothvellir glumdu líka á svipuðum slóðum í Kristianstad á mánudag, en þá varð enginn fyrir skoti. SVT hefur eftir lögreglu að ekki sé vitað hvort tengsl séu á milli þessara atburða, en það verði rannsakað. Þá útilokar lögregla ekki að skothríðin tengist átökum glæpagengja, en segir það þó aðeins einn möguleika af mörgum sem til skoðunar séu.