Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Svandís: Runninn upp nýr veruleiki

Mynd: Hjalti Haraldsson / Skjáskot
Heilbrigðisráðherra segir að nú sé runninn upp nýr veruleiki í baráttunni við kórónuveiruna. Mikilvægt sé að hugsanlegar sóttvarnaaðgerðir í framtíðinni nái yfir lengra tímabil en hingað til hefur verið. Líklega verði rætt um breyttar aðgerðir á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilkynnti á upplýsingafundi Almannavarna í gær að hann myndi ekki leggja til formlegar aðgerðir vegna faraldursins og að ákvörðunin væri í höndum stjórnvalda.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að þetta feli ekki í sér að hann hafi gefið boltann yfir á stjórnvöld. Hlutverk sóttvarnalæknis sé skýrt afmarkað í sóttvarnalögum og tillögur muni áfram koma frá honum.

„Minnisblaðið sem ég fékk í gær var í raun og veru áhættumat og kortlagning á stöðunni sem hann taldi rétt að afhenda mér án þess að þar væru þessar hefðbundnu tillögur. Þannig að það var nú það sem hann var að segja,“ segir Svandís.

Meðal þess sem finna má í þessu minnisblaði sóttvarnalæknis er mat á hversu lengi Landspítali geti tekið við. Svandís segir stöðu spítalans áhyggjuefni.

„Þó að hlutfall þeirra sem eru veikir af þeim sem smitast sé lægra en var áður en við vorum fullbólusett, sem við erum núna, þá er það áhyggjuefni ef faraldurinn nær mjög miklum hæðum hérna.“

Við erum í rauninni að tala um nýjan faraldur

Núverandi aðgerðir gilda út næstu viku - til 13.ágúst. Svandís segir að væntanlega verði rætt um nýjar aðgerðir á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn en vildi hvorki gefa upp hverjar þær yrðu né hvenær þær tækju gildi.

„Við erum í rauninni að tala um nýjan faraldur þar sem delta hagar sér allt öðru vísi en upprunalega covid-ið með sínum afbrigðum og samfélagið er í rauninni öðruvísi því það er fullbólusett. Þannig að við erum með að mörgu leyti breyttar forsendur og við þurfum að horfa lengra inn í framtíðina og mér finnst líklegt að við verðum á næsta ríkisstjórnarfundi að skoða valkosti og sviðsmyndir inn í lengri framtíð. Við munum hér eftir sem hingað til byggja okkar ákvarðanir á upplýsingum, þekkingu og á ráðgjöf sóttvarnalæknis.“

Áttu von á að fá ráðgjöf sóttvarnalæknis fyrir ríkisstjórnarfund á föstudaginn? „Ég á von á því, já.“

Engar takmarkanir fyrirhugaðar á skólastarfi

Í dag funduðu ráðherrar með fulltrúum úr skólasamfélaginu, íþróttum og menningu. Svandís segir að þar hafi komið fram sterkur vilji til að sóttvarnaaðgerðir væru varanlegri.

Ekki verður tekin ákvörðun um bólusetningu 12-15 ára barna fyrr en í lok þessa mánaðar og Svandís segir mestu máli skipta að starfsfólk í skólunum sé vel varið. Hún segir engar takmarkanir fyrirhugaðar á skólastarfi. Hins vegar sé nauðsynlegt að hugsa aðgerðir í heild sinni til lengri tíma.

„Það er of mikið álag fyrir samfélagið að vera með þessi harmonikuviðbrögð - að vera með mjög harðar aðgerðir og síðan losanir einhverjum tveimur-þremur vikum síðar,“ segir Svandís.

„Þótt það hafi allt saman gefist vel á fyrri stigum. Núna erum við einfaldlega bara með annan veruleika og þurfum að horfa meira til þess að aðgerðirnar séu varanlegri og fólk geti aðlagað sig að aðgerðunum til lengri tíma.“