Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skynjar ekki óróa vegna upphafs skólastarfs

04.08.2021 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar segist ekki skynja óróa meðal starfsmanna vegna upphafs skólastarfs. Langstærstur hluti kennarahópsins var bólusettur með bóluefni Pfizer og þarf því ekki örvunarskammt.

Engar sérstakar takmarkanir

Skólastarf hefst um miðjan mánuðinn og vegna fjölgunar kórónuveirusmita hafa margir velt fyrir sér hvernig því verði háttað. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í gær að engar takmarkanir væru í gildi þegar kæmi að skólastarfi og undirbúningur ætti að miðast við það. Þá hefur kennurum sem fengu Janssen-bóluefnið verið boðið að fá örvunarskammt af Pfizer-bóluefninu til að auka öryggi þeirra. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, segir að þar gangi undirbúningur vel. 

Flestir á Akureyri fengu Pfizer

„Staðan á Akureyri er sú að langflest starfsfólk leik- og grunnskóla fékk Pfizer þannig að við erum í þeirri stöðu að það eru svona á bilinu einn til fimm í hverjum skóla sem þurfa viðbótarbólusetningu. Annars höfum við ekki miklar áhyggjur af þeim þætti,“ segir Karl. 

Þannig að þið skynjið engan óróa hjá ykkar starfsmannahópi yfir því að þetta sé að fara af stað?

„Nei svo langt sem ég veit þá hafa skólastjórnendur ekki orðið varir við það.“

Skólafólk veit hvað þarf að gera

Hefðuð þið viljað fá svör fyrr um hvernig þessi verður háttað eða hvort það verða einhverjar breytingar?

„Ég held að það sé ekki þörf á því. Við erum orðin ansi vön. Skólafólk almennt á Íslandi veit nákvæmlega hvað þarf að gera og þekkir öll viðbrögðin og að því leyti erum við ekki í óvissu.“