Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ofurhlaupabrautin í Tókýó dælir út metum

epa09389295 Karsten Warholm of Norway winning the Men's 400m Hurdles final at the Athletics events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Olympic Stadium in Tokyo, Japan, 03 August 2021.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ofurhlaupabrautin í Tókýó dælir út metum

04.08.2021 - 11:25
Hönnuður hlaupabrautarinnar á Ólympíuleikvanginum í Tókýó segir hana gefa íþróttafólki möguleika á allt að 1-2% bætingu. Tvö heimsmet hafa fallið nú þegar og brautin virðist vera ein sú hraðasta í sögunni.

Lætin hófust strax í 100 metra hlaupi kvenna þegar hin jamaíska Elaine Thompson-Herah hljóp næsthraðasta hlaup sögunnar og bætti 33 ára gamalt ólympíumet bandarísku hlaupakonunnar Florence Griffith-Joyner. Thompson-Herah bætti svo landsmet Jamaíku í 200 metrum þegar hún nældi sér í gullverðlaun í 200 metra hlaupi. Í gær stórbætti Norðmaðurinn Karsten Warholm heimsmet sitt í 400 metra grindahlaupi þegar hann varð fyrsti maðurinn til að hlaupa greinina á undir 46 sekúndum. Kollegi hans, hin bandaríska Sydney McLaughlin, bætti svo sitt eigið heimsmet í úrslitum í sömu grein sem fram fóru í nótt.

epa09392987 Sydney McLaughlin of the US celebrates winning the Women's 400m Hurdles during the Athletics events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Olympic Stadium in Tokyo, Japan, 04 August 2021.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sydney McLaughlin bætti heimsmet í 400 metra grindahlaupi í nótt.

Auk þessara meta setti pólska 4x400 metra boðhlaupssveitin ólympíumet, Ítalinn Lamont Marcell Jacobs setti Evrópumet þegar hann sigraði í 100 metra hlaupi karla og Jasmine Camacho-Quinn frá Puerto Rico setti ólympíumet í 100 metra grindahlaupi kvenna í undanúrslitum greinarinnar. Þá hefur fjöldinn allur af keppendum sett landsmet, álfumet og persónuleg met í þeim hlaupum sem lokið er. Skóbúnaður, hlýtt veður og brautin sjálf eru nefnd sem líklegar skýringar á að metin hríðfalla á leikunum. 

Andrea Vallauri er hönnuður brautarinnar í Tókýó og segir að hún sé vissulega betri en fólk hafi gert ráð fyrir. Í hvert skipti sem Ólympíuleikar séu haldnir sé reynt að betrumbæta mótun og efni brauta og Tókýó hafi ekki verið nein undantekning. Brautin er afar þunn, 14 millimetrar, en það sem er nýtt eru sexhyrningslaga gúmmíkorn í undirlagi brautarinnar.

Vegna þessarar lögunar myndast loft í undirlaginu sem gefur brautinni fjaðurmagnaða eiginleika, svipaða trampólíni. Þetta gefur bæði örlítinn spyrnukraft og fer betur með fætur íþróttafólksins. Undirlagið fellur þó algjörlega innan ramma reglnanna og er eins á öllum brautum á vellinum og á lang- og þrístökks aðhlaupinu, en heimsmet kvenna í þrístökki var einmitt slegið á leikunum og konurnar í 2. og 3. sæti settu landsmet. 

Nýr skóbúnaður frá Nike hefur einnig verið til umræðu en heimsmethafinn Karsten Warholm gagnrýndi hann til að mynda í viðtali eftir sitt ótrúlega heimsmetshlaup. Þar sagði hann það einfaldlega ekki réttlátt að Nike íþróttafólk gæti hlaupið í skóm með svokallaðri pebax-froðu sem hann sagði hreinlega vera eins og trampólín. „Mér finnst þetta kjaftæði og þetta tekur trúverðugleikann úr íþróttinni okkar.“

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

McLaughlin bætti heimsmetið sitt í 400 m grindahlaupi

Ólympíuleikar

Warholm setti ótrúlegt heimsmet

Ólympíuleikar

Bætti 26 ára gamalt heimsmet um 17 sentímetra