Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metumferð á hringveginum

04.08.2021 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Umferðin um þjóðveg 1 í nýliðnum júlí jókst um nærri 6 prósent frá sama mánuði í fyrra og hefur aldrei verið meiri á einum mánuði. Umferðin reyndist 2,3 prósentum meiri en í júlí 2019 þegar fyrra met var sett. Mest jókst umferðin á Austurlandi.

Frá áramótum hefur umferðin aukist um tæp 10 prósent miðað við sama tíma fyrir ári. Útlit er nú fyrir að umferðin í ár muni aukast um allt að 12 prósent á ársgrundvelli. Þrátt yrði umferðin eigi að síður um 3 prósentum minni en umferðin var metárið 2019. Um verslunarmannahelgi jókst umferðin mikið frá því í fyrra, var um leið heldur minni um Hellisheiði en um sömu helgi 2019, en sambærileg um Hvalfjarðargöng. 

Umferð mun meiri en spáð var 

Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á hringvegi er sem fyrr segir tæplega 6 prósentum meiri í nýliðnum júlí en í sama mánuði á síðasta ári. Reyndist umferðin mun meiri en spár gerðu ráð fyrir og var slegið nýtt met í umferð um téða lykilteljara.  

Fyrra metið var frá árinu 2019 og reyndist umferðin um þjóðveg 1 nú 2,3 prósentum meiri en gamla metið. Umferð jókst á öllum landssvæðum en mest um teljarasnið á Austurlandi eða rúmlega 23 prósent en minnst um höfuðborgarsvæðið, eða aðeins 0,4 prósent. 

Umferð jókst einnig við alla teljara landsins fyrir utan eitt, við Úlfarsfell, en þar varð 1,3 prósent samdráttur. Mest jókst umferð um teljara á Möðrudalsöræfum eða tæp 34 prósent.