Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metnaður getur verið sálfræðileg hindrun

Mynd: EPA / EPA

Metnaður getur verið sálfræðileg hindrun

04.08.2021 - 10:26
Þórir Hergeirsson og norska kvennalandsliðið í handbolta lögðu Ungverja í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í morgun. Þórir segir metnaðinn vera mikinn í liðinu en það geti líka verið sálfræðileg hindrun.

Leikurinn var jafn og spennandi og liðin skiptust á forystunni. Markvörðurinn Katrine Lunde, sem er 41 árs, átti lykilinnkomu í norska liðið á síðari hluta seinni hálfleiks. Hún varði 5 af 8 skotum sem hún fékk á sig og Noregur sneri leiknum úr því að vera tveimur mörkum undir í að ná fjögurra marka forskoti og vinna.

Þórir segir leikinn hafa verið dæmigerðan 8-liða úrslitaleik hjá liði sem hefur mikinn metnað og háleit markmið. Flestar af leikmönnunum séu búnar að bíða eftir þessu augnabliki í fimm ár, síðan liðið tapaði fyrir Rússum í undanúrslitum leikanna í Ríó 2016.

Í undanúrslitum mætir Noregur einmitt liði rússnesku Ólympíunefndarinnar, sem vann Svartfjallaland í nótt, 32-26. Þær geta því hefnt fyrir tapið fyrir fimm árum og komið sér áfram í baráttuna um Ólympíugullið. Þórir segir rússneska liðið vera það besta sem hægt sé að mæta á leikunum og að þetta verði eins og í Ríó, tvö af bestu liðunum lendi saman í undanúrslitum en aðeins eitt lið komist í úrslit.

Þórir segir það vera sín reynsla að það séu kröfur frá þeim sjálfum, leikmönnum, sambandinu og norsku fólki að liðið fari til Tókýó og vinni, annað sé einfaldlega lélegt. Viljinn og þráin sé mikil að spila um verðlaunin og Þórir segir hópinn hafa mikinn metnað til þess að spila um verðlaun en það geti verið stór sálfræðileg hindrun. „Þú verður oft þinn stærsti andstæðingur sjálfur,“ bætir hann við. 

Viðtal við Þóri má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.