Kötturinn reyndist vera menningarunnandi

Mynd: Aðsend / Hildur Knútsdóttir

Kötturinn reyndist vera menningarunnandi

04.08.2021 - 13:50

Höfundar

Kötturinn Snabbi á það til að sækja veitinga- og skemmtistaði bæjarins ásamt því að staldra við kirkjuturna og listasöfn. Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og eigandi Snabba, segir það langþráðan draum að geta kortlagt ferðir katta sem nú hafi ræst.

Líkt og svo margir ákvað Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, að fá sér gæludýr í innilokun heimsfaraldurs og hóf leit að kettlingi fyrir nokkru síðan. Loks fann hún hinn eina rétta sem var nokkuð stálpaður, átta mánaða köttur að nafni Snabbi. Ekki reyndist þó alltaf auðvelt að eiga hann því hann gerði fjölskylduna reglulega mjög áhyggjufulla með því að týnast.  

Hildur brá á það ráð að setja staðsetningaról á köttinn og kom þá fljótt í ljós að hann hefur ekki eingöngu eignað sér hjörtu fjölskyldunnar heldur alla Reykjavík, því hann fer marga kílómetra á dag og er orðinn fastagestur í til dæmis Ásmundarsal, Hallgrímskirkju, Alþingishúsinu og Listasafni Einars Jónssonar.  

Mynd með færslu
Ferðalag Snabba yfir daginn

 

Gengur yfir 4 kílómetra á dag  

Eftir að sólin fór að skína lagðist Snabbi í flakk og átti það til að hverfa frá heimilinu jafnvel oft í viku. Hildur var orðin fastagestur á Facebook-síðu Vesturbæjar þar sem hún bað granna sína að hafa augun opin fyrir kisu. Eftir þriðja skiptið á tíu dögum ákvað Hildur að nú gengi þetta ekki lengur og keypti staðsetningaról á köttinn. „Ég hef verið að kortleggja ferðir  hans síðan sem er rosa gaman,“ segir Hildur í samtali við Hafdísi Helgu Helgadóttur og Júlíu Margréti Einarsdóttir í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.  

„Ég hef átt ketti lengi og þetta hefur alltaf verið svo dularfullt,“ segir Hildur, hún hafi velt fyrir sér hvert kettirnir færu eiginlega yfir daginn. Ferðir Snabba komu Hildi mjög á óvart en hann fer langar vegalengdir. Yfirleitt gengur Snabbi um fjóra kílómetra á dag en oft fer hann hátt í átta. „Þarna rættist draumur minn og við erum eiginlega bara búin að vera að njósna um Snabba síðan.“

Sveitarkötturinn verður menningarlegur  

„Snabbi kemur úr sveit og ég velti fyrir mér hvort það sé ástæðan fyrir því að hann fer svona langt,“ segir Hildur en bætir þó við að ástæðan gæti einnig verið að þau búi í Vesturbænum og margt um ketti á þeim slóðum. Þrátt fyrir að vera sveitarköttur en Snabbi fremur menningarlegur og sækir gjarnan í listasöfn og kirkjur.   

„Hann er mikið á Austurvelli, svo tók hann tímabil þar sem hann var mikið í Alþingisgarði og einnig á Austurstræti,“ segir Hildur en ól Snabba fannst eitt skiptið hjá skemmtistaðnum Austur. Þegar Hildur var í sumarfríi var Snabbi í pössun hjá frænku hennar og þá hitti hún kisann á veitingastaðnum Snaps, þaðan gengu þau svo saman heim.  

Snabbi er á hraðri leið að festa sig í sessi frægra borgarkatta. Hildur er dugleg að setja myndir af ferðum hans inn á Facebook-síðuna Spottaði kött, sem hún mælir með fyrir alla að skoða. Þá fær hún reglulega athugasemdir frá fólki sem segist hafa séð hann hér og þar yfir daginn, hann sé fastagestur í vinnunni hjá sumum og fólk þekkir hann með nafni. „Þó hann sé ekki búinn að búa í bænum lengi þá er hann búinn að hasla sér völl þarna.“  

Kemur úr bókmenntafjölskyldu 

Kötturinn Snabbi kemur frá hálfgerðri bókmenntafjölskyldu en hann fékk Hildur að launum fyrir að lesa yfir handrit hjá kunningjakonu sinni, Fanneyju Hrund Hilmarsdóttur. Hún hafði nefnt kettina eftir persónum úr Múmínálfunum en þau eru Mía, Snabbi og Snúður.  

Það er því nokkur tilviljun að í nýjasta handriti Hildar fjallar hún einmitt um margt af því sem Snabbi færði inn í líf hennar. Handritið kláraði hún í lok janúar, á svipuðum tíma og hún fékk Snabba. „Það eru gps-tæki og týndir kettir, og Vesturbæjarsíðan kemur svolítið við sögu. Það er mjög fyndið,“ segir Hildur og er viss um að fólk muni hugsa með sér að Snabbi hafi verið innblásturinn að sögunni. Það sé ótrúlegt að saga hennar fjalli um konu sem rekur sig áfram með hjálp staðsetningartækja og svo hefur það að vissu leyti ræst í hennar eigin lífi. 

Hildur er þekkt fyrir unglingabækur sínar en hún tekur fram að nýja bókin verði ekki fyrir börn. Í raun þyki henni alltaf erfitt að flokka bækur sínar eftir aldri, hún heyri langmest frá konum á eigin aldri sem hafi lesið sögur hennar. „En þessi er mjög ógeðsleg,“ segir hún. Bókin ber heitið Myrkrið milli stjarnanna og er væntanleg í október. 

Hægt er að fylgjast með ferðum Snabba á Instagram-síðu Hildar. Hún segir að fólki sé alveg óhætt að klappa honum ef það rekst á hann. „Hann er mjög indæll.“ 

Rætt var við Hildi Knútsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.  

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Spennandi, áreynslulaust og fantavel gert

Bókmenntir

Ljónið - Hildur Knútsdóttir

Bókmenntir

Dæmigerður reynsluheimur stúlkna á 21.öld