Gaman að geta kallað æðarfuglinn til sín

Mynd: RÚV / Oddný Halldórsdóttir

Gaman að geta kallað æðarfuglinn til sín

04.08.2021 - 16:25

Höfundar

„Við vöktum eins og á almennilegri vöggustofu,“ segir Oddný Halldórsdóttir, æðarbóndi á Vesturlandi. Hún hefur, ásamt Magnúsi Tómassyni, skapað griðland fyrir æðarfuglinn. Þau ala upp ungana, fara með þá í gönguferðir og sjóferðir og sleppa þeim svo lausum þegar haustar.

Á Keisbakka á Skógarströnd hafa æðarbændurnir Oddný Halldórsdóttir og Magnús Tómasson komið upp eins konar æðarungaskjóli. Markmiðið er að stuðla að endurheimt æðarvarps í landi.  

„Það er sorgleg staðreynd að afföllin í náttúrunni sjálfri eru 90-95%. Það eru því svo örfáir af þessum litlu félögum sem lifa af lífsbaráttuna,“ segir Oddný við Sigrúnu Hermannsdóttur í Sumarlandanum. Í náttúrunni er það vargur sem étur þetta mikla hlutfall af öllum eggjum og ungum æðafugla.  

Tilgangurinn er að koma á vernduðu varpi til að reyna að koma fleiri ungum á legg. Orðatiltækið að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni fær því bókstaflega merkingu.  

Eftir að æðarfuglinn er orpinn taka Oddný og Magnús eitt eða tvö, í mesta lagi, egg úr hverju hreiðri og setja í útungunarvélar. „Við vöktum eins og á almennilegri vöggustofu og fylgjum þessum ungum á fætur,“ segir hún. Þau taka ungana í sína umsjá og veita þeim vernd og skjól.  

Fara með ungana í göngutúra og sjóferðir  

„Við fóðrum þá og skýlum. Förum í gönguferðir og út að sjó í sundferðir,“ segir Oddný. „Þá verður til þetta fallega samband sem er mjög sérstakt.“  

Oddný segir æðarungana synda eins og meistara og kafa eins og skjaldbökur. „Það er dásamlegt að fylgjast með þeim þegar þeir koma fyrst út í sjó og uppgötva þarann og allt lífið sem er í sjónum,“ segir hún.  

Þau gefa ungunum fram á haustið en á þeim tímapunkti eru þeir búnir að vera frjálsir þrátt fyrir að vera ekki orðnir fleygir. Jafnvel eftir að þeir séu orðnir fleygir komi þeir samt fljúgandi til að fá sér korn eða tvö. „Það er vissulega gaman að koma hérna, jafnvel inn í veturinn, og geta kallað á fuglana. Og í raun babbað þá inn.“ 

Þrátt fyrir að hafa alist upp í mannahöndum taka æðarfuglarnir þeim opnum örmum. „Maður hlakkar til að geta séð á eftir þeim út á fjörð og vita að það er hópur sem tekur á móti þeim.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Oddný Halldórsdóttir
Á Keisbakka á Skógarströnd hefur verið komið á griðarlandi fyrir æðarfuglinn.

Oddný og Magnús fengu styrk úr sóknaráætlun sveitarfélaga á Vesturlandi sem nýttur var í girðingar og útungunarvélar. Verkefninu er fylgt eftir af rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi sem merki fuglanna svo hægt sé að fylgjast með hvort að það séu í raun þeirra fuglar sem komi aftur. 

Þetta er þriðja árið sem Oddný og Magnús sinna varpinu. Æðarfuglinn verður kynþroska 3-4 ára gamall. „Við sjáum á næsta ári hvort okkar fuglar séu að koma til baka og verpa í þessu griðlandi sem við erum búin að búa til fyrir þau.“ 

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Kötturinn reyndist vera menningarunnandi

Menningarefni

Viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum

Mannlíf

Sefur undir björtum himni allar nætur

Stjórnmál

Eitursvalur Larry þrátt fyrir stjórnmálaólgu