Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórir saman í óhappi á vespu

04.08.2021 - 07:24
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Nokkuð var um fíkniefnamisferli síðasta sólarhringinn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að einhverjum virtist verulega í nöp við kyrrstæða bifreið eða mögulega eiganda hennar. Þá varð óhapp í Kópavogi sem taldi eina vespu og fjóra ferðalanga. 

Fjórir piltar og ein vespa

Vespuóhappið átti sér stað í hverfi 201 í Kópavogi laust fyrir klukkan 22:00 í gærkvöld. Fjórir 14 ára drengir reyndu að komast leiðar sinna akandi á einni vespu og var aðeins einn þeirra með hjálm.  Vildi ekki betur til en svo að ökumaðurinn missti stjórn á vespunni með þeim afleiðingum að fjórmenningarnir duttu.  Þrír drengjanna reyndust lítið sem ekkert slasaðir en sá fjórði missti meðvitund í skamma stund. Samkvæmt upplýsingum frá Bráðamóttöku var hann talinn hafa fengið heilahristing.  Málið er unnið í framhaldinu með aðkomu foreldra drengjanna. 

Kyrrstæð bifreið fékk að kenna á því

Þá var tilkynnt um afgerandi eignaspjöll á bifreið í hverfi 101 um klukkan 02:00 í nótt.  Þegar að var komið reyndist einhver vera búinn að skera á dekk bílsins og og lét viðkomandi ekki þar við sitja heldur hafði auk þess verið reynt að kveikja í bifreiðinni. Ekki fylgir sögunni hversu mikinn árangur sú tilraun bar.

Allnokkuð um akstur undir áhrifum

Um hálf-ellefuleytið í gærkvöld var bifreið stöðvuð í hverfi 101.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bílsins undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda. 

Tveimur klukkustundum síðar voru afskipti höfð af manni í hverfi 105. Aðspurður um fíkniefni framvísaði maðurinn ætluðum fíkniefnum sem voru haldlögð og vettvangsskýrsla rituð. 

Loks var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 200.  Bifreið hafði þá verið ekið á aðra kyrrstæða og tjónvaldur yfirgefið vettvanginn.  Var tjónvaldur stöðvaður skömmu síðar og handtekinn,  grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  Tjónvaldur var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.