Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórir íbúar á Grund með COVID-19

04.08.2021 - 11:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir íbúar í Minni-Grund, á hjúkrunarheimilinu Grund, greindust með kórónuveirusmit í vikunni og sýnir annar þeirra nokkur einkenni.

Þar að auki eru tveir íbúar í austurhúsi Grundar smitaðir. Þeir hafa verið einkennalausir og losna úr einangrun í vikulokin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grundarheimilunum.

Skimun útsettra íbúa er lokið. Skimun starfsmanna stendur yfir og allnokkrir þeirra eru í sóttkví. Heimsóknarbann hefur verið í gildi á Grund og er gert ráð fyrir að það standi fram yfir helgi.

Þá greindist starfsmaður á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði í vikunni. Seinni skimun 33 íbúa og þeirra starfsmanna sem fóru í sóttkví í síðustu viku fer fram í dag.

Enginn íbúi í Ási hefur hingað til greinst með smit. Lokað er fyrir heimsóknir á hjúkrunarheimilið en gera má ráð fyrir að heimsóknarbanni verði aflétt að fengnum niðurstöðum úr seinni skimun.