Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Danskur prestur í 15 ára fangelsi fyrir hrottalegt morð

04.08.2021 - 06:46
Politifoto af Thomas Gotthard. Til brug for efterforskningen af det mulige drab på Maria From Jakobsen søger Nordsjællands Politi informationer om Thomas Gotthards færden i perioden fra fredag den 23. oktober 2020 og frem til søndag 15. november 2020, herunder særligt mandag den 26. oktober 2020, hvor Maria From Jakobsen forsvandt.
 Mynd: Lögreglan á Norður-Sjálandi - DR
Thomas Gotthard, sóknarprestur nærri Frederikssund á Sjálandi, viðurkenndi í gær að hafa myrt eiginkonu sína, Mariu From Jakobsen, að yfirlögðu ráði í fyrra. Saksóknari las játningu hans upp í réttarsal í Hilleröd, þar sem hann var dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir illvirkið. Þar játaði hann ekki einungis að hafa orðið konu sinni að bana, heldur einnig að hafa skipulagt hvort tveggja morðið og eftirleik þess í smáatriðum. Rétt er að vara við því að það sem á eftir kemur er ekki falleg lesning.

„Nákvæmlega skipulagður verknaður“

„Þetta var nákvæmlega skipulagður verknaður," sagði dómarinn, Betina Heldman, þegar hún kvað upp úrskurð sinn. „Þú keyptir efni og komst þér upp sögu til að dylja slóð þína áður en þú framdir hann." Sagði hún játninguna ekki duga til refsilækkunar.

Yfirlýsing Gotthards var lesin upp fyrir luktum dyrum, og hvorki fréttafólk né aðstandendur fengu að vera viðstödd. Í frétt DR segir að skömmu eftir klukkan sextán hafi saksóknari hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing Gotthards fæli í sér beina játningu og því skyldi opna réttarhaldið almenningi.

Neitaði sök í sjö mánuði

Maria From Jakobsen, 43 ára sálfræðingur, hvarf sporlaust í október í fyrra og var lýst eftir henni. Þremur vikum síðar handtók lögregla eiginmann hennar, prestinn Gotthard, vegna gruns um að hann bæri ábyrgð á hvarfi hennar. Hefur hann setið í gæsluvarðhaldi allar götur síðan.

Í sjö mánuði neitaði Gotthard allri sök en í júní greindi lögregla frá því að hún hefði fundið jarðneskar leifar Mariu From Jakobsen, með aðstoð Gotthards. Samkvæmt frétt DR játaði hann um leið að hafa myrt konu sína.

Tók sér viku til að plana morðið og eftirleik þess

Anne-Mette Seerup, saksóknari, las upp úr yfirlýsingu morðingjans óg eigin málflutningi eftir að réttarhaldið var opnað. Þar kemur fram að guðsmaðurinn hafði lagt á ráðin um morðið í viku áður en hann lét til skarar skríða.

„Það er skelfilegt frá því að segja, en þetta virðist hafa verið honum eins og einhvers konar áhugamál," sagði saksóknari. „Hann skrifaði upp lista yfir það sem hann þyrfti að  gera við hana."

Mundi eftir sýrubaði úr Breaking Bad

Í ákæruskjalinu kemur fram að Gotthard fór í stórmarkað hinn 19. október til að skoða hin ýmsu hreinsiefni, til að kanna hvert þeirra væri mest ætandi. Þetta gerði hann minnugur þess að hafa horft á þátt af bandarísku glæpaseríunni Breaking Bad, þar sem lík var leyst upp í sýru.

Í framhaldinu keypti hann 208 lítra tunnu og ætandi sýru sem hann hugðist nota til að losa sig við lík konu sinnar. Einnig lagði hann á ráðin um hvernig hægt væri að láta líta út fyrir að hún hefði sjálf ákveðið að láta sig hverfa, meðal annars með því að leggja bíl hennar á tilteknum stað og láta sem eldra bréf frá henni væri nýtt „kveðjubréf“ hennar til hans.

26. október réði hann konu sinni síðan bana í garðinum við heimili þeirra og hófst síðan handa við að losa sig við jarðneskar leifar hennar og útmá öll sönnunargögn sem gætu leitt til handtöku hans og sakfellingar. Verða þær aðfarir ekki tíundaðar frekar hér, en nánar er fjallað um málið á vef DR.

Framhjáhald og útpælt morð en engin sorgleg ástarsaga

Við reifun málsins í gær kom einnig fram að klerkurinn hafði átt í ástarsambandi við aðra konu um nokkurra ára skeið. Hann sagðist hafa átt í innri baráttu um það, hvort hann ætti að drepa konu sína eða ekki, en endað með því að skipuleggja morðið.

Maria þurfti að deyja, sagði Gotthard, af því að hann vildi fá frið.

Saksóknarinn Anne-Mette Seerup sagði þetta ekki vera neina „sorglega ástarsögu um mann sem losaði sig við eiginkonuna, vegna þess að hann gæti að öðrum kosti ekki eignast stóru ástina í lífinu. Þetta er saga um mann, sem svipti Mariu From Jakobsen lífinu með köldu blóði. Um mann, sem breyttist úr eiginmanni í drápsmann.“

„Ég er sekur um sannkallaðan harmleik“

Í lok réttarhaldsins í gær, áður en dómarinn dró sig í hlé til að ákvarða úrskurð sinn, fékk Thomas Gotthard sjálfur orðið og las upp stutta yfirlýsingu. „Ég myrti Maríu. Ég tók einn og sjálfur þá ákvörðun að binda enda á framtíð hennar og drauma. Um leið svipti ég börnin okkar móður sinni og skilyrðislausri ást hennar.“

Gotthard sagði að enginn ætti að vorkenna honum, enda hefði hann sjálfur komið sér í þær aðstæður sem hann er í. „Ég er sekur um að hafa svikið ykkur og logið og haft ykkur að ginningarfíflum. Ég er sekur um sannkallaðan harmleik.“ Eftir að dómarinn kvað upp úrskurð sinn sagðist Gotthard ætla að taka sér umhugsunarfrest til að ákveða hvort hann myndi áfrýja dómnum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV