COVID-19 veitti tækifæri til að vera heima með barninu

Mynd: Kristján Tryggvi Martinsson / Aðsend

COVID-19 veitti tækifæri til að vera heima með barninu

04.08.2021 - 15:29

Höfundar

„Það var mjög fínt að fá smá fæðingarorlof. Í Hollandi eru þau mjög aftarlega með þetta, móðirin fær þrjá mánuði en pabbinn ekki einn dag,“ segir Kristján Tryggvi Martinsson tónlistarmaður sem er búsettur í Amsterdam en kom heim til Íslands í heimsfaraldri og fékk kærkominn tíma með nýfæddu barni sínu.

Kristján Tryggvi Martinsson er búsettur í Amsterdam þar sem hann starfar sem tónlistarmaður og -kennari. Þaðan sendi hann frá sér plötuna In Layers sem hann samdi og lék í kvartett ásamt þremur öðrum listamönnum. Á plötunni spilar Kristján á píanó en með honum er trommuleikari frá Hollandi og tveir Portúgalar sem eru áberandi í spunasenunni þar í landi. Hann ræddi við Pétur Grétarsson á Rás 1 um lífið og tónlistina.

„Ha, spila? Gerið þið það?“

Líkt og hjá flestum listamönnum setti heimsfaraldur strik í reikninginn hjá Kristjáni sem ekki getur komið fram á tónleikum eins og hann er vanur. „Covid var miklu strangara og erfiðara í Amsterdam en hér heima. Maður heyrði af fólki sem var að spila hér og var bara: ha, spila? Gerið þið það ennþá,“ segir Kristján sem nú er staddur á Íslandi ásamt fjölskyldunni.

Hann segir að síðasta eina og hálfa árið hafi verið mjög erfitt. „Þetta er hluti af mannlífi, að spila. Þó ég kenni líka er það stór hluti að vera uppi á sviði,“ segir hann.

Móðir fær þrjá mánuði, faðir nokkra daga eða ekkert

Kristján varð nýverið faðir og segir að það hafi verið afar kærkomið að vera staddur á Íslandi þegar fjölgunin varð. „Það var mjög fínt að fá smá fæðingarorlof. Í Hollandi eru þau mjög aftarlega með þetta, móðirin fær þrjá mánuði en pabbinn ekki einn dag. Ef maður er í launavinnu fær maður reyndar fimm daga en í verktakavinnu ekkert,“ segir Kristján sem hefur notið þess að verja tíma með afkvæminu. „Að því leyti var frábært að geta verið heima.“

Því má segja að kórónuveiran hafi veitt honum tækifæri til að taka þátt í uppeldinu fyrstu mánuðina. „Algjörlega,“ segir Kristján. „Ég er þakklátur fyrir það.“

Ron Burgundy og ímynd flautuleikarans

Önnur plata er væntanleg frá Kristjáni þar sem hann leikur sjálfur á pínaó og þverflautu. Plötuna vann hann með frönskum vini sínum sem býr á Íslandi. „Við sendum lögin á milli, ég spilaði einhver stef, sendi til hans og hann spilaði yfir. Svo er annað lag sem hann byrjaði og ég kláraði,“ segir Kristján.

Þverflautan var fyrsta hljóðfærið sem Kristján sérhæfði sig í og tók hann framhaldspróf á hana. „Ég ætlaði bara að verða þverflautuleikari en svo var ég alltaf að spila djass,“ segir Kristján. Hann lét stundum djass á flautu í Amsterdam og keypti sér altflautu sem hann lék á með sveitinni. En hefur Ron Burgundy, fréttaþulurinn úr samnefndri kvikmynd, eyðilegt ímynd djassflautuleikarans með því að spúa eldi og drekka kokteil með sinni og láta öllum illum látum uppi á sviði? „Já, ég held það. Yfirleitt þegar maður segir djassflauta þarf maður að hlaupa,“ segir Kristján og hlær.

Hægt er að hlýða á viðtalið við Kristján Tryggva Martinsson í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Byrjar plötuna í óspilltri náttúru og myrðir hana svo