Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bráðamóttaka vísar sjúklingum á heilsugæslustöðvar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Mjög þung staða er á bráðamóttöku Landspítala og hefur sjúklingum verið vísað á heilsugæslustöðvar og Læknavakt. Fólk sem leitar á bráðamóttökuna má gera ráð fyrir langri bið og þjónustu er forgangsraðað eftir því hve liggur á henni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsspítala.

„Fólk sem leitar á bráðamóttöku vegna vægari slysa eða veikinda má því gera ráð fyrir langri bið eftir þjónustu“ segir í tilkynningunni. „Á tímum heimsfaraldurs COVID-19 er sérstaklega mikilvægt er að almenningur taki tillit til ofangreindra aðstæðna á bráðamóttöku, ef mögulegt er.“

Starfsfólk beðið að stytta sumarfrí

COVID-19 faraldurinn hefur reynt mikið á starfsfólk spítalans og nú í fjórðu og stærstu bylgunni til þessa, er biðlað til starfsfólks að stytta sumarfrí.

„Til marks um ástandið hefur fólki í eftirliti á COVID-göngudeildinni fjölgað jafnt og þétt að undanförnu og sömuleiðis inniliggjandi sjúklingum á spítalanum. Á sama tíma er fjöldi starfsfólks í einangrun og sóttkví, sem auðveldar ekki mönnun.“