Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aðst.þjálfari Vals: Vonandi heldur þessi umræða áfram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Aðst.þjálfari Vals: Vonandi heldur þessi umræða áfram

04.08.2021 - 22:25
Þjálfari KR segir að titilvonir liðsins séu úr sögunni „í bili alla vega" eftir tapið gegn Valsmönnum í úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld. Aðstoðarþjálfari Vals segir að vonandi haldi áfram umræða um ósannfærandi spilamennsku liðsins sem er nú með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.

Valur vann leikinn 1-0 og eru KR ingar í 5. sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Vals þegar sjö umferðum er ólokið. Rúnar Kristinsson þjálfari KR segir að titilvonir liðsins séu líklega úr sögunni núna. „Í bili alla vega. Það er orðið ansi langt upp og mörg lið fyrir framan okkur líka. Það verður erfitt að ná í þann stóra en við ætlum ekki að gefast upp. Við erum ennþá í bikarkeppninni og það er barátta um Evrópusæti," sagði Rúnar m.a. í viðtalinu sem má sjá hér fyrir neðan.

Mynd: RÚV / RÚV

Vonandi heldur þessi umræða bara áfram og við endum efstir

Heimir Guðjónsson þjálfari Vals var ekki tiltækur þegar RÚV falaðist eftir viðtali við hann. Srdjan Tufegdzic aðstoðarþjálfari mætti hins vegar galvaskur og ánægður með sigur sinna manna.

Umræða hefur verið meðal sérfræðinga í sjónvarpi og hlaðvarpi um ósannfærandi spilamennsku Vals í undanförnum leikjum þrátt fyrir að liðið hafi verið á toppnum fyrir leikinn í kvöld. Srdjan glotti þegar hann var spurður hvort honum fyndist leikmenn Vals hafa svarað þessum gagnrýnisröddum með frammistöðu sinni í kvöld og sagði;

„Ég vona bara að þessi umræða verði áfram út september, að við endum á toppnum og þeir haldi sömu umræðu áfram. Við sýndum í kvöld af hverju við erum á toppnum," sagði aðstoðarþjálfarinn m.a. í viðtalinu sem má sjá hér fyrir neðan.

Mynd: RÚV / RÚV

Tengdar fréttir

Fótbolti

Valur náði fjögurra stiga forystu á toppnum