Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

116 smit í gær - rúmur þriðjungur í sóttkví

04.08.2021 - 10:53
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Í gær greindust 116 með covid-smit í sýnatökum innanlands. Það er sjö fleiri en daginn áður þegar 109 greindust smitaðir. 71 þeirra sem greindust með smit í gær er fullbólusettur en 43 óbólusettir. Tveir greindust með covid við komuna til landsins í gær og beðið er mótefnamælingar úr þeim þriðja. Einn greindist með smit í seinni sýnatöku að lokinni sóttkví eftir komuna frá útlöndum. Einn þeirra sem greindust á landamærunum var bólusettur en þrír óbólusettir.

Rúmlega þriðjungur, 36%, þeirra sem greindust með covid í gær voru í sóttkví. 

Í gær voru tekin 3.857 sýni, öllu fleiri en á mánudag, frídag verslunarmanna, þegar sýnin voru 3.152 talsins. 4,27 prósent þeirra sem komu í einkennasýnatöku greindust með covid, það er svipað hlutfall og síðustu daga. 

Samkvæmt nýjustu tölum frá almannavörnum eru 1.329 í einangrun vegna covid-smits og 1.941 í sóttkví. Fjórtán daga nýgengi innanlandssmita er komið í 394,6 en nýgengi á landamærunum er fallið í 4,4.