Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vitaly Shishov fannst látinn í almenningsgarði

03.08.2021 - 06:41
Vitali Shishov hvarf í Kiev 2. ágúst
 Mynd: Tadeusz Giczan
Hvítrússneski aðgerðasinninn Vitaly Shishov sem saknað hefur verið frá því í gærmorgun fannst hengdur í almenningsgarði í Kiev í morgun, skammt frá heimili hans. Lögregla í Kiev, tilkynnti um líkfundinn og að morðrannsókn væri hafin.

Shisov fór út að skokka í gærmorgun en skilaði sér ekki til baka. Vinir hans segja ókunnuga menn hafa fylgt honum eftir þegar hann hefur farið út að hlaupa undanfarna daga.

Umfangsmikil leit lögreglu og sjálfboðaliða hófst fljótlega eftir að ljóst var að Shishov skilaði sér ekki heim. Í tilkynningu lögreglunnar segir að allir möguleikar verði skoðaðir í rannsókn málsins, meðal annars að ætlunin hafi verið að dulbúa morð sem sjálfsvíg. 

Shiskov fór fyrir frjálsum félagasamtökum sem aðstoða fólk við að flýja Hvíta-Rússland. Fjöldi Hvítrússa hefur flúið land undanfarið, einkum til Úkraínu, Póllands og Litháen.