Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þarf að rjúfa þing áður en hægt verður að kjósa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þótt minna en átta vikur séu til kosninga er enn ekki hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar þar sem ekki er búið að rjúfa þing. Fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins gæti gert kosningarnar afar flóknar í framkvæmd.

Kjósa á til þings 25. september og samkvæmt kosningalögum á að hefja kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag.

Á laugardaginn voru einmitt átta vikur til kosninga og töldu þá margir að hægt væri að byrja að kjósa. Í það minnsta höfðu margir samband við embætti sýslumanns í dag í þeim tilgangi en fengu þau svör að það væri ekki hægt. „Kjördagur er áætlaður 25. september en það er ekki búið að auglýsa hann og fyrr getur utankjörfundaratkvæðagreiðsla ekki hafist. Um leið og það er búið að rjúfa þing, sem forsætisráðherra hefur sagt að verði í fyrsta lagi 12. ágúst og ef að það verður ákveðinn kjördagur og auglýstur, þá byrjum við strax daginn eftir, sem yrði þá 13. ágúst, “ segir Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu.

En hvenær þing verður rofið og hægt verður að auglýsa kjördag er líklega minnsta áhyggjuefni kjörstjórna fyrir þessar kosningar. Alþingi samþykkti í byrjun júní sérstakt bráðabirgðaákvæði í kosningalögum sem heimilar þeim sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 að greiða atkvæði utan kjörfundar.

Fjórða bylgjan flækir framkvæmdina

Þegar ákvæðið var samþykkt var faraldurinn í lágmarki og aðeins einn greindist með veiruna þann daginn. Miðað við stöðuna nú er mögulegt að hundruð, jafnvel þúsundir, verði í einangrun eða sóttkví á kjördag. Þau þurfa að greiða atkvæði á dvalarstað og framkvæmdin gæti orðið afar flókin. Til dæmis er kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréf og því þarf viðkomandi að njóta aðstoðar kjörstjóra við að kjósa.

Í forsetakosningunum í fyrra gat fólk sem var í sóttkví greitt atkvæði úr bílum sínum en þá voru smit mun færri en þau eru í dag. Ekki er búið að ákveða hvernig framkvæmdinni verður háttað í september. „Undirbúningur er hafinn um hvernig þetta muni verða, þar á meðal hvernig þetta verður með covid-sóttvarnir og annað slíkt og það mun verða unnið mjög vel með ráðuneytinu og við munum hitta þau í næstu viku,“ segir Sigríður.

Magnús Geir Eyjólfsson