Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Stundum eru listamenn tiltölulega ógeðfelldir“

Mynd: Aðsendar / Hildur - Steinunn - Hlynur

„Stundum eru listamenn tiltölulega ógeðfelldir“

03.08.2021 - 14:21

Höfundar

Þegar ég fór að sýna mín eigin verk fann ég að þetta var afskaplega persónulegt, segir Steinunn Ólína Hafliðadóttir. Í kjölfar #meetoo-byltingarinnar er fólk dregið til ábyrgðar og því vert að spyrja hvort það sé í raun æskilegt að aðskilja listina frá listamanninum.  

Ein af stærstu spurningunum innan listaheimsins í dag er hvort hægt sé að aðskilja listina listamanninum, hvort hægt sé að njóta verksins þrátt fyrir misgjörðir þess sem skapaði það. 

Steinunn Ólína Hafliðadóttir, listamaður, aktívisti og íslensku- og bókmenntafræðinemi, Hildur Elísa Jónsdóttir, myndlistarmaður og tónskáld, og Hlynur Helgason, myndlistarmaður og dósent í listfræði við Háskóla Íslands, ræða sína upplifun og skoðun á spurningunni.  

Listaverk séu framlenging af listamönnum 

„Það er forvitnilegt að pæla í þessu út frá mér sjálfri,“ segir Steinunn Ólína í samtali við Melkorku Gunborg Briansdóttur í Tengivagninum á Rás 1. „Þegar það kom að því að sýna mín eigin verk fann ég að þetta var afskaplega persónulegt.“ Steinunni þótti það mikil berskjöldun vegna þess að verkin skapaði hún í eirðarleysi eða þegar henni leið illa. „Þegar ég horfi á það þá er augljóst að aðskilnaðurinn við mig sem listamann og mína list er enginn.“  

Hildur Elísa er á sama máli og þykir listaverk vera eins og framlenging af þeim sem skapar þau. „Listamaðurinn er uppspretta verkanna og þau endurspegla hann alltaf, ef ekki að öllu leyti.“ Hún segist sjálf geta speglað sig í eigin verkum og finnst þau vera birtingarmynd alls þess sem hún er og hefur upplifað og lært á ævinni. „Þau eru samansafn af kyni, kyngervi, félagslegri stöðu, menntun og pólitískum skoðunum.“ Þá segir hún að skoðanir þeirra sem hún umgengst og allt sem hún hefur tekið inn og tileinkað sér rati í verk hennar. „Ég held að það komi skýrt fram.“ 

Djöflar listamanna gera þá áhugaverðari

Hlynur er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að horfa á verkin ein og sér heldur þurfi að taka tillit til ólíkra þátta. Líkt og persónu listamannsins, og þykir Hlyni mikilvægt að nota orðið persóna. „Höfundar annað hvort sviðsetja sig sjálfir eða eins og við sjáum í listasögulegu samhengi þá eru höfundar settir á svið. Síðan einhvers staðar þarna á bak við er einhver lifandi höfundur.“ 

„Flókni hluturinn við persónuna er að stundum eru listamenn tiltölulega ógeðfelldir. En við getum þá sagt að þeir hafi sína djöfla og það skapar oft mjög áhugavert samhengi,“ segir Hlynur en bætir þó við að þessi ógeðfellda persóna verði að vera frekar heilsteypt ef hún á að virka, hún megi ekki brotna upp. „Það skiptir máli að við vitum að þeir voru þjáðir og það litar þjáningarfullu útgáfu verkanna.“ Hlynur nefnir listamenn á borð við Goya og Beethoven í þessu samhengi. 

„Listrænar hugmyndir spretta ekki upp úr höfðinu á fólki“ 

„List er samfélagslegur spegill, gefur alltaf einhverja mynd af samtíma sínum. Listrænar hugmyndir spretta ekki upp úr höfðinu á fólki eins og þruma úr heiðskíru lofti, heldur spretta þær upp úr þeim jarðvegi sem listamaðurinn lifir og hrærist í,“ segir Hildur. Að hennar mati er ekki hægt að aðskilja verkið frá listamanninum vegna þess að ef það á að horfa á listaverk sem stak í tómarúmi þurfi líka að aðskilja það frá ártali og tíðaranda. „Listamaðurinn sömuleiðis mótast af samtímanum og samferðafólkinu rétt eins og aðrir.“ 

„Það sem við þurfum að skoða er að við þurfum að geta aðskilið verkið frá listamanninum,“ segir Hlynur og bætir við að einnig þurfi að skoða ákveðna þætti listamannsins. „Vandamálið við suma listamenn er að þeirra persónu hættir til að yfirstrika verkið. Fólk fer að dýrka persónuna og eru verkin lituð af því.“ Á annan hátt er hægt að segja að þjáðar persónur, að verkin gætu trúlega staðið sjálfstætt, án persónudýrkunarinnar. „Þó við vitum að persónan hafi verið brotin þá getum við ekki bannað verkin.“ 

Á að útskúfa og brenna á báli? 

„Það er erfitt að finna hreint og beint svar um hvernig eigi að nálgast það þegar listamaður fremur einhverjar ósiðferðislegar gjörðir,“ segir Steinunn og nefnir tímann frá brotinu og skala þess, ef hægt er að meta slíkt yfirhöfuð, sem áhrifaþátt. Fólk sé ekki alveg sammála um hvernig eigi að bregðast við, á að hætta að hlusta, eyða öllu, útskúfa listamanninum og brenna verkin á báli? „Þess vegna skapast torskildar umræður í kringum til dæmis nýleg mál þegar listamaður gerist sekur um að brjóta á fólki. Hvað eigum við að gera?“ 

Steinunn spyr hvort maður eigi að hafa samviskubit yfir því að fíla enn list einhvers sem hefur gerst sekur um eitthvað. „Ég held að það sé ekki alveg sanngjarnt að biðja fólk um að svissa bara algjörlega,“ segir hún, því ef fólk hefur hrifist af einhverri list á uppvaxtarárum sínum eða hún hefur haft áhrif á það í gegnum lífið sé erfitt að biðja það að slökkva á tengingum við listina. Það megi þó átta sig á því að ákveðið bókverk eða lag hafi söguleg áhrif án þess þó að lýsa stuðningi yfir gjörðir listamannsins.  

Fortíðin er til þess að læra af  

„Mér finnst mikilvægt að horfa á fortíðina með gagnrýnum huga miðað við allar þær upplýsingar sem við höfum í dag. Við erum öll mannleg og gerum mistök og breytumst í flúkti við upplýsingaflæðið,“ segir Hildur. „Það sem við vitum í dag á að hafa áhrif á hvernig við horfum á fortíðina, þó ekki nema bara til að við getum lært af henni.“ Samfélagið sé vonandi alltaf aðeins betra en fyrir áratug og ættum við því að geta nálgast fortíðina á gagnrýninn hátt.  

„Það sem leiðst þegar listamaðurinn gerði verkið líðst ekki núna og það hljóta alltaf að vera einhverjar ástæður fyrir því,“ segir Hildur og bætir við að þó svo að ofbeldi og slæm framkoma í nánum samböndum hafi verið samfélagslega liðið á öldum áður hafi það aldrei átt rétt á sér og verði aldrei réttlætanlegt. „Það er hægt að útksýra alls konar skrítið með því að setja það í sögulegt samhengi en það er aldrei hægt að afsaka það með þessu sögulega samhengi.“ 

„Ef þú ætlar að tala um þessi verk áfram verðurðu að taka þetta með í rekninginn,“ segir Hildur því listaverkið sé óaðskiljanlegt listamanninum og endurspegli hans hugarheim. Hún vill ekki að verkin séu brennd en hún vill að upplýsingum sé betur miðlað til fólks.  

Skoðum hlutina upp á nýtt  

„Í vissu samhengi þarftu að setja hlutina til hliðar þangað til að þú getur skoðað þá upp á nýtt,“ segir Hlynur en það sé ávallt reynt að gera þegar lista- og menningarsagan er skoðuð. „Við erum alltaf að reyna að skoða hlutina upp á nýtt, sjá brotalamirnar og losa hlutina í sundur til að geta sett saman á nýjan hátt.“ Hlynur segir að hægt sé að fullyrða að mikið af listamönnum fortíðarinnar hafi gert hluti sem fólk gæti ekki sætt sig við í dag.  

Hann segir mikilvægt að aftengja verkin listamanninum og skoða hvort listamaðurinn hafi verið mikilvægur þrátt fyrir þessa persónu sem skapast hefur. „Við þurfum að skoða listaverkið, skoða persónuna og gagnrýna hana.“  

Listamenn þurfa að taka ábyrgð 

En er sanngjarnt að gera þá kröfu til listamanna að þeir séu dyggðugt fólk? „Nei, ekki frekar en annað fólk,“ segir Hildur, listafólk sé bara mannlegt rétt eins og allir aðrir. „Ég held að þú getir gert þá kröfu á listamenn eins og aðra, en ekki frekar en aðra,“ segir Hlynur.  

Steinunni þykir gott að sjá að í dag sé slíkt samtal í gangi, að fólk sé látið taka ábyrgð á eigin gjörðum. „En þýðir það að við þurfum að taka ábyrgð mörg hundruð árum seinna,“ spyr hún. Ef til þess kæmi að brenna ætti allt eftir þá sem brotið hafa samfélagsleg gildi, værum við ekki ekki bara að seðja eigin samvisku?  

„Listamaður, eins og menn, þurfa að bera ábyrgð á sínum brotalömum. Við þurfum að láta þá setja þessa ábyrgð,“ segir Hlynur. Hann telur listamenn oft vera áhugaverðari fyrir brotalamir sínar ef þeir ná að vinna sig út úr þeim. „Erfiðleikinn við Norðurlöndin er oft sagður vera að listamenn lifa allt of góðu og vernduðu lífi, og þar af leiðandi eru verkin ekki nógu áhugaverð.“ Hann segir að svo lengi sem þetta fólk sé ekki að fremja glæpi séu það gallarnir sem geri það að áhugaverðari persónum.  

Rætt var við Steinunni Ólínu Hafliðadóttur, Hildi Elísu Jónsdóttur og Hlyn Helgason í Tengivagninum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hélt að hvíld væri leti og ómennska

Myndlist

„Kökusneiðar“ úr höfðum listamanna í mánuði myndlistar

Menningarefni

Angurvær hljómasúpa með öndun

Myndlist

„Við ættum öll að draga fram striga og skapa“