Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skólar verða opnir - Engin breyting þar á frá fyrra ári

03.08.2021 - 21:28
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra segja að skólum verði haldið opnum í vetur, á því verði ekki breyting. Forsætisráðherra segir verða metið hvort þörf sé á frekari efnahagsaðgerðum. Fjármálaráðherra segir efnahagslegan skell ekkert í líkingu við þann fyrir ári síðan. 

Ríkisráðsfundur verður í vikunni og ráðherranefndarfundir þar sem ríkisstjórnin fer yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni vegna faraldursins. Forsætisráðherra segir þessa viku verða nýtta til að meta árangur þeirra aðgerða sem gripið var til fyrir tíu dögum með ákveðnum takmörkunum og tveimur vikum á landamærunum. Fundað hefur verið með sérfræðingum um faraldsfræðilega þætti og í þessari viku verður fundað með ýmsum í samfélaginu um framhaldið, eins og forsætisráðherra orðar það. Meðal annars um menntamálin.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherrasegir skólum hafa verið haldið opnum í gegnum  faraldurinn hér á landi. Á því muni ekki verða breyting. „ við munum áfram forgangsaða skólahaldi. Hvort að það þarf að hafa eitthvað í huga við skipulag þess, það er eitthvað sem við erum að fara að ræða við þau sem eru starfandi á vettvangi en hluti af því að undirbúa að skólastarf geti verið með sem eðlilegustum hætti er auðvitað endurbólusetning kennara sem er að hefjast í dag."

Svandís Svavarsdóttir helbrigðisráðherra áréttar að 
 engar takmarkanir séu í gildi varðandi skólastarf og nú sé  engin reglugerð í gildi varðandi takmarkanir á skólastarfi. Hún  gerirráð fyrir því að allir hefji undirbúning að skólastarfi eins og við eðlilegar kringumstæður.

Áhættumat á bólusetningum tólf til fimmtán ára barna og veikindum þess aldurshóps stendur yfir að sögn Katrínar. Menn vilji skoða  þau mál betur og alþjóðlegar rannsóknir áður en ákveðið verði að bólusetja börn.
Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar verða í gildi út árið. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra eru sammála um að aðgerðir fram til þessa hafi skilað góðum árangri.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að 
enn sem komið er telji hann að  nýjustu ráðstafanir valdi ekki mjög mikilli röskun, áhrifin séu sérstaklega á ákveðnar tegundir rekstrar. 

„En ef við erum að horfa á þetta í stóra samhenginu þá erum við ekki að verða fyrir neinum efnahagslegum skelli núna sem er í líkingu við það sem var fyrir ári síðan."

Katrín Jakobsdóttir segir að nú skipti máli að horfa til þess að við séum í breyttri stöðu. Bólusetningin sé alveg gríðarlega mikilvæg og hún veiti vörn gegn alvarlegum veikindum. Nú þurfi að endurmeta heilsufarsstöðuna og um leið hvort að þörf sé á frekari efnahagsaðgerðum.   
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir