Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Siglingafólk gleðst á Akureyri

03.08.2021 - 11:18
Mynd: Ólafur Göran Ólafsson Gros / Rúv
Aðstaða til siglingaíþrótta á Akureyri batnar til muna nú þegar nýtt aðstöðuhús er tilbúið. Formaður Siglingaklúbbsins Nökkva segir aðstöðu siglingafólks gjörbreytta og vonast til að fjölgi í klúbbnum.

Siglingahöllin

Aðdragandinn að byggingu nýs aðstöðuhúss Nökkva hefur verið langur en nú er húsið tilbúið og gengur undir nafninu Siglingahöllin, enda mun stærra heldur en fyrri aðstaða klúbbsins.

Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Nökkva segir aðstöðuna nú orðna mjög góða. „Þetta er sennilega alla vega fjórföldun á húsrými og öll búningsaðstaða og öll umgjörð í kringum siglingamennina sjálfa, sem þeir þurfa á landi mun batna alveg svakalega. Til að mynda eru nú 8 sturtur í stað einnar sem var í gamla húsinu. Aðstaða fyrir hreyfihamlaða er líka til staðar. Auk þess er stórt þurrkherbergi fyrir blautbúninga og annað sem við höfðum ekki áður,“ segir Tryggvi.

Starfið á veturna breytist mest

Í september á síðasta ári hófust framkvæmdir við nýtt hús Siglingaklúbbs Nökkva sem nú er tilbúið. Áður hafði klúbburinn haft afnot af litlum skúrum við Pollinn sem eru allt of litlir fyrir siglingaklúbbinn og aðstaðan bágborin. 

Starfið á veturna tekur hvað mestum breytingum, því nú er öll inniaðstaða önnur og hægt að vera þar með báta til viðhalds en ekki einungis nokkrar vikur á vori eins og áður.

Daði Jón Hilmarsson, leiðbeinandi hjá Siglingaklúbbnum Nökkva segir að nýja húsið muni verða til þess að öll aðstaða verði betri. „Við getum haft stærri námskeið út af því við erum með stærri aðstöðu. Við getum líka græjað bátana inni. Við erum nú með verkstæði inni þannig við getum rúllað bátunum inn og gert við þá þar,“ segir Daði.

Daði bætir síðan við að allir í klúbbnum séu mjög spenntir og hafi beðið eftir bættri aðstöðu í langan tíma. 
 

Stefna á enn betri aðstöðu

Framtíðarplönin eru að bæta aðstöðuna enn meira - bæta á útisvæðið og þá jafnvel setja heit ker fyrir sjósundfólk. Það gerist þó allt með tíð og tíma og nauðsynlegt að ana ekki að neinu. „Það skiptir náttúrulega máli að nýta reynsluna af svæðinu áður en við förum í frekari uppbyggingu við sjóinn. Hann er náttúrlega mjög hverfull þessi sjór, hann getur rústað mannvirkjum sem menn setja upp á kannski einum vetri. Þannig það þarf að vanda til verks og velja staðina vel sem á að lagfæra og nota, segir Tryggvi, formaður Nökkva.

Tryggvi segir að margir þeir sem stunda siglingaíþróttir hafi ekki tekið þátt í starfinu hjá Nökkva vegna skorts á aðstöðu fyrir þá. Hann á von á að það breytist og hann segist finna að fólk sé farið að streyma heim í klúbbinn aftur.