Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikil gróska í framleiðslu á vörum úr geitamjólk

03.08.2021 - 14:44
Mynd: RÚV / RÚV
Salatostur og skyr eru meðal afurða sem geiturnar á Lynghóli í Skriðdal gefa af sér nú í sumar. Þrátt fyrir hæga fjölgun í geitastofninum er nú mikil gróska í framleiðslu á vörum úr geitamjólk.

Stofninn í útrýmingarhættu

Talið er að geitur hafi fyrst borist til lands með landnámsmönnum og hafi verið hér í um ellefu hundruð ár. Stofninn, sem talinn er í útrýmingarhættu, hefur undanfarin ár sótt aðeins í sig veðrið. Um síðustu áramót voru um rúmlega sextán hundruð vetrarfóðraðar geitur hér á landi en voru rúmlega ellefu hundruð árið 2016. Þrátt fyrir hæga fjölgun er mikil gróska í greininni.

Sjá einnig: Framleiða osta úr mildum geitum í Fljótunum

Framleiða ost og skyr á Lynghóli

Á Lynghóli er til dæmis framleiddur ostur og skyr úr mjólkinni. „Á kvöldin koma geiturnar heim, það er búið að venja þær á það að þær koma alltaf heim í kringum kvöldmatinn og þá flokkum við kiðlingana frá og mjólkum sem sagt bara á morgnana, kiðlingarnir fá svo afgang af mjólkinni á daginn,“ segir Þorbjörg Ásbjörnsdóttir, bóndi á Lynghóli.

„Of snemmt að fara að tjá sig mikið um arðsemina“

En það er ekki einfalt verk að búa til osta og skyr úr geitamjólk en hjónin á Lynghóli segja vinnuna vel þess virði. „Þetta hefur bara gengið vel, það er nú kannski orðið of snemmt að fara að tjá sig mikið um arðsemina á þessu en þetta lítur bara vel út. Afurðirnar seljast og fólk viðrist almennt ánægt með þetta, segir Guðni Þórðarson, bóndi á Lynghóli.