Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leigubíll flutti sýnin suður

Mynd með færslu
 Mynd: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Leigubíll var pantaður til að flytja kórónuveirusýni frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða suður til Reykjavíkur í gær. Sýnin eru jafnan flutt til borgarinnar með flugi í lok dags, en þegar flugsamgöngur falla niður eru góð ráð dýr.

Hildur Elísabet Pétursdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá stofnuninni, segir að þá þurfi oft að stóla á góðmennsku samborgaranna.

„Þá byrja allir að setja inn á Facebook-síðurnar hjá sér hvort einhver þekki einhvern sem getur tekið pakka til Reykjavíkur. Þær hafa verið ansi margar færslurnar síðasta eina og hálfa árið,“ segir Hildur.

Ein slík vakti athygli fréttamanns en hún birtist í Facebook-hóp sem ætlaður er fyrir samnýtingu bíla milli Vestfjarða og höfuðborgarinnar. Hildur segist ekki hafa áhyggjur af öryggi sýnanna.

„Þetta er svo lítið samfélag að maður þekkir eiginlega alla. Þetta hefur aldrei brugðist,“ segir Hildur og bætir við að fólk sé ekki að bjóðast til þess að sækja sýnin til þess eins að henda þeim í ruslið. „Maður finnur það bara að það eru allir tilbúnir að hjálpa.“

Öllu vön

Ekki hefur verið flogið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur síðustu þrjá daga og í gær þurfti að panta leigubíl fyrir sýnin, þegar aðrar leiðir brugðust. Þá var 30 tíma bið eftir niðurstöðum.

Á Vestfjörðum eru sýnatökur í boði á Ísafirði og Patreksfirði og eru þær skipulagðar eftir flugáætlun Icelandair. En Vestfirðingar eru ýmsu vanir eftir erfiðan síðasta vetur, þar sem aftakaveður og svartasta covid lögðust á eitt. Í eitt sinn þurfti aðstoð björgunarskips Landhelgisgæslunnar til að koma sýnunum suður.

Hildur segir það alltaf óheppilegt þegar ekki er hægt að stóla á flugið. Það tefur smitrakningu að fá niðurstöður seint, auk þess sem smitlausir þurfa að bíða lengur eftir að losna úr sóttkví. Allir eru jú í sóttkví frá sýnatöku þar til niðurstöður liggja fyrir.
 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV