Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Komumst aldrei nógu vel inn í þennan leik“

Mynd: RÚV / RÚV

„Komumst aldrei nógu vel inn í þennan leik“

03.08.2021 - 14:55
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska karlalandsliðinu í handbolta eru úr leik á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir tap gegn Egyptalandi í 8-liða úrslitum. Alfreð var að vonum svekktur með leikinn og segir úrslitin ergileg.

Markmið Alfreðs og þýska liðsins var að komast í undanúrslit og hefði leikurinn gegn Egyptum unnist hefði markmiðinu verið náð. Alfreð sagði í viðtali við RÚV eftir leik að sínir menn hafi aldrei komist nógu vel inn í leikinn en Egyptar byrjuðu af miklum krafti og komust í 6-1 í upphafi leiks. Þjóðverjar náðu að minnka muninn en staðan var samt sem áður 16-12 fyrir Egyptum í hálfleik. 

„Vörnin hefði mátt vera aðeins hreyfanlegri og af því að við náum ekki alveg okkar venjulegu vörn þá vorum við ekki nógu sterkir heldur í markinu. Frammi vorum við svo að skjóta illa á markmanninn hjá þeim, það gerir þetta mjög erfitt allan tímann,“ segir Alfreð. 

Brasið hélt áfram í seinni hálfleik, Þjóðverjarnir náðu aldrei að skera niður forskotið og lokatölur urðu 31-26. Alfreð segir sigur Egyptana þó ekki vera neina tilviljun, þeir hafi aðeins tapað einum leik í keppninni hingað til og sé lið sem hafi verið gott undanfarin ár, og sé alltaf að skána. „Okkar markmið var að komast í undanúrslit og með því hefðum við þurft að vinna þennan leik í dag en við gerðum það ekki. Egyptarnir verðskulduðu að vinna þetta,“ bætir hann við að lokum. 

Viðtalið við Alfreð í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.