Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Í höndum stjórnvalda að taka ákvörðun um næstu skref

03.08.2021 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það alfarið í höndum stjórnvalda að taka ákvörðun um það hvernig þau bregðist við stærstu bylgju kórónuveirufaraldursins til þessa. Hann leggi ekki fram tillögur á sama hátt og áður. Þessi vika skeri úr um það hvort þær sóttvarnaaðgerðir sem nú eru í gildi skili árangri. 

Hann segir bólusetningu ekki hafa stuðlað að hjarðónæmi og varar við því að áframhaldandi útbreiðsla geti leitt af sér mikið álag á heilbrigðiskerfið.

Bólusetning hefur ekki byggt upp hjarðónæmi

Á upplýsingafundi almannavarna lagði Þórólfur áherslu á að bólusetning hefði ekki stuðlað að jafngóðu hjarðónæmi og búist var við, enda væri ljóst að bólusettir smituðust auðveldlega. Vonir stæðu til þess að þrátt fyrir hraða útbreiðslu veirunnar kæmi bólusetning í veg fyrir alvarleg veikindi. 

24 hafa þurft að leggjast á sjúkrahús í þessari bylgju af þeim 1.470 sem hafa greinst innanlands, um 1,6 prósent. Í fyrri bylgjum var hlutfallið 4-5 prósent. Þórólfur bendir á að um 70 prósent þeirra sem hafa greinst frá 1. júlí hafi verið fullbólusettir og hlutfall bólusettra sem hafi þurft að leggjast inn á spítala um 1 prósent. Þórólfur ítrekar að enn sé ekki vitað hversu vel bólusetning verndar þá sem eru eldri og þá sem hafa undirliggjandi sjúkdóma.

Smit mest meðal þeirra sem fengu Janssen

Smit hefur helst greinst hjá þeim sem voru bólusettir með Janssen-bóluefninu og Þórólfur staðfesti á fundinum að áformað væri að bjóða börnum á aldrinum 12 til og með 15 ára bólusetningu á næstunni. Hann sagði börn ekki hafa verið lögð inn hér á landi en að stór hópur barna væri undir eftirliti COVID-göngudeildar. Þau hefðu minni einkenni en flestir fullorðnir en í útlöndum hefðu börn þurft að leggjast inn á sjúkrahús með alvarleg einkenni. 

Hætta á miklu álagi á sjúkrahúsum

Alls eru um 30 þúsund eldri en 16 ára óbólusettir hér á landi og um 70 þúsund börn. Þórólfur sagði að því væri ljóst að mikil útbreiðsla gæti leitt af sér mikinn fjölda alvarlega veikra. Einnig gæti vel komið til þess að bólusettir þyrftu að glíma við alvarleg veikindi, en það yrði að koma í ljós með tímanum. Taka þyrfti tillit til þess að staðan gæti leitt af sér mikið álag á spítalann.