Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Engar takmarkanir þegar kemur að skólastarfi

03.08.2021 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir engar takmarkanir í gildi þegar kemur að skólastarfi í haust og undirbúningur ætti að miðast við það. Ríkisstjórnin ræddi leiðir til að bregðast við stærstu bylgju faraldursins hér til þessa, á ríkisstjórnarfundi í morgun. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ekki hægt að beita sömu verkfærum og áður því bólusetningar breyti stöðunni.

Skólastjórnendur hafa kvartað undan því að óvissa sé um skólastarfið sem hefst á næstu vikum vegna fjölda smita í samfélaginu. „Það eru engar takmarkanir í gildi varðandi skólastarf þannig að ég geri ráð fyrir því að allir hefji undirbúning að skólastarfi eins og við eðlilegar kringumstæður. Við erum að hefja í dag þessa örvunarbólusetningu fyrir kennara og það verður til þess að verja þann hóp ennþá betur en við sjáum að bólusetningar eru að gagnast mjög vel, ekki gagnvart smitum nægilega vel en vel gagnvart sjúkdómnum og alvarlegum veikindum,“ segir Svandís. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tiltölulega mildar ráðstafanir í gildi hér, en fylgjast þurfi vel með framhaldinu. „Það eru margir sem hafa smitast en við þurfum líka að horfa á alvarleika veikinda, það er auðvitað stóra málið að þetta er ekki sama staða og í óbólusettu samfélagi, við erum að sjá að bóluefnin virðast vera að veita góða vörn gegn veikindum þannig að við getum ekki tekið gömlu verkfærin upp úr skúffunni og gert það sama og við gerðum þegar samfélagið var óbólusett heldur þurfum við að meta þetta alveg upp á nýtt.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnarfundurinn í morgun hafi fyrst og fremst verið samráðsfundur til að skipuleggja vinnuna fram undan og þá valkosti sem standi til boða til að bregðast við, þar á meðal ýmis efnahagsúrræði sem verða í gildi út þetta ár. „Þau eru til staðar fyrir þá sem eru að verða fyrir tekjufalli og slíku. Enn sem komið er þá held ég að þessar nýjustu ráðstafanir okkar séu ekki að valda mjög mikilli röskun þó auðvitað komi það við suma, sérstaklega ákveðnar tegundir rekstrar, tökum sem dæmi skemmtistaðina. Og auðvitað er það áfall fyrir Vestmannaeyinga að hafa ekki getað haldið þjóðhátíð eða aðra sem voru að undirbúa slíka viðburði en við verðum að horfa á þetta í stóra samhenginu og þá erum við ekki að verða fyrir neinum efnahagsskelli núna sem er í líkingu við það sem var fyrir ári síðan,“ segir Bjarni. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV