Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ebrahim Raisi settur í embætti Íransforseta í dag

03.08.2021 - 05:27
epaselect epa09290230 Iranian President-elect Ebrahim Raisi speaks during his first press conference after winning the presidential election, in Tehran, Iran, 21 June 2021. Raisi said that his government will follow the nuclear negotiations with world powers but not for a long time, adding that US must lift the sanctions and return to JCPOA deal.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nýkjörinn forseti Írans, harðlínumaðurinn Ebrahim Raisi, verður settur í embætti í dag. Við honum blasa margvísleg úrlausnarefni á sviði efnahagsmála auk glímunnar við vaxandi útbreiðslu COVID-19 í landinu.

Auk þess ríkir mikil spenna milli Írans og vesturveldanna. Raisi þarf einnig að halda áfram samingaviðræðum sem ætlað er að endurvekja kjarnorkusamninginn frá árinu 2015.

Eins liggja Íranir nú undir ámæli Bandaríkjastjórnar, Breta og Ísraela um að bera ábyrgð á mannskæðri árás á olíuskip á Arabíuflóa í síðustu viku. Írönsk stjórnvöld bera af sér alla sök í því máli.

Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, sagði í samtali við fréttstofu í júni, skömmu eftir að Raisi var kjörinn að hann muni framfylgja stefnu klerkaráðsins sem stjórni nær öllu í Íran.

Innsetningarathöfnin hefst klukkan sex árdegis að íslenskum tíma á skrifstofum æðsta klerks íslamska lýðveldisins Ayatollah Ali Khamenei í miðborg Teheran. 

Öll umferð er bönnuð um nærliggjandi götur í tvær klukkustundir og sömuleiðis öll flugumferð yfir borginni. Næstkomandi fimmtudag leggur Raisi svo ríkisstjórn sína undir þingið í Teheran.