Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bitinn af ísbirni og fluttur til Akureyrar

03.08.2021 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Arktisk Kommando
Maður var fluttur með flugi frá rannsóknarstöð á Grænlandi til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Akureyri í gær eftir að hafa verið bitinn af ísbirni í fyrrinótt.

Þrír kvikmyndagerðarmenn voru að störfum í nágrenni rannsóknarstöðvarinnar sem nefnist Danebrog Station á Austur-Grænlandi en þeir voru sofandi þegar ísbjörninn lét til skarar skríða.

Ísbjörninn braust inn um glugga og vaknaði einn mannanna við það að ísbjörninn hafði bitið í vinstri hönd hans. Maðurinn náði að vekja félaga sína og hrekja ísbjörninn á brott. 

Maðurinn var fluttur undir læknishendur í rannsóknarstöðinni, en að endingu ákveðið að hann þyrfti á frekari aðstoð að halda og var flogið með hann til Akureyrar.

Björninn var ekki af baki dottinn en hann reyndi að koma aftur að húsinu næstu nótt, þegar tveir voru enn í húsinu. Björninn hefur fimm sinnum valdið usla. Hann hefur nú verið skilgreindur sem sérstakur vandræðabjörn en slíka birni má skjóta ef þeir sjást nærri byggð.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV