Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allir íbúar Wuhan-borgar skikkaðir í sýnatöku

03.08.2021 - 04:40
Security personnel gather near the entrance of the Wuhan Institute of Virology during a visit by the World Health Organization team in Wuhan in China's Hubei province on Wednesday, Feb. 3, 2021. (AP Photo/Ng Han Guan)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Yfirvöld í borginni Wuhan í miðhluta Kína tilkynntu í morgun að allir íbúar hennar skuli fara í sýnatöku. Fyrstu kórónuveirutilfellin í meira en ár komu þar upp í gær.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi borgaryfirvalda í morgun. Faraldurinn á uppruna sinn í borginni en veirunnar hefur ekki orðið vart þar í heilt ár. Nú hafa greinst þar sjö ný smit sem rakin eru til farandverkamanna.

Kínverjar hafa undanfarna daga gripið til mjög harðra sóttvarnaaðgerða þar sem smita hefur orðið vart. Íbúum heilla borga er gert að halda sig heima við, dregið er úr samgöngum og gríðarmiklar sýnastökustöðvar eru settar upp.

Í morgun tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í landinu að 61 nýtt innanlandsmit af Delta-afbrigðinu hafi greinst víðsvegar um landið. Uppruna smitanna má rekja til starfsfólks á flugvelli í Nanjing-borg í austurhluta landsins.

Hverjum einasta af 1,3 milljónum íbúa nágrannaborgarinnar Yangzhou er nú gert að halda sig heima, með þeirri undantekningu að einum frá hverju heimili er leyft að fara út til að kaupa nauðsynjar.