Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aðgerðasinni horfinn sporlaust í Kiev

03.08.2021 - 03:16
Vitali Shishov hvarf í Kiev 2. ágúst
 Mynd: Tadeusz Giczan
Hvítrússneski aðgerðasinninn Vitali Shishov er horfinn í Kiev, höfuðborg Úkraínu. Hann er sagður hafa farið út að skokka í gærmorgun en ekki skilað sér til baka. Hans er nú leitað dyrum og dyngjum.

Hvorki hefur náðst samband við hann símleiðis né með öðrum hætti. Shiskov fer fyrir frjálsum félagasamtökum sem hafa aðstoðað fólk við að flýja Hvíta-Rússland. 

Vinir Shishovs segja ókunnuga menn hafa fylgt honum eftir þegar hann hefur farið út að hlaupa undanfarna daga, að því er fram kemur í tilkynningu félagasamtakanna. 

Umfangsmikil leit lögreglu og sjálfboðaliða stendur yfir en hefur ekki borið árangur ennþá. 

Fjöldi Hvítrússa hefur flúið land undanfarið, einkum til Úkraínu, Póllands og Litháen. Stjórn Alexanders Lúkasjenka, forseta landsins, hefur beitt öllum brögðum til að halda aftur af andófi frá því mikil mótmæli brutust út í kjölfar umdeildra forsetakosninga á síðasta ári. 

Hvítrússnesku hlaupakonunni Kristinu Tsimanovskaju var í gær veitt hæli af mannúðarástæðum í Póllandi. Til stóð að senda hana heim af Ólympíuleikunum eftir að hún gagnrýndi liðsstjórn Hvíta-Rússlands á leikunum.