Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Zoom endurgreiðir notendum sínum 10,5 milljarða króna

02.08.2021 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd: Indranil Aditya - Getty Images
Bandaríska fjarskiptafyrirtækið Zoom hefur fallist á að greiða notendum sínum samtals 85 milljónir dollara eða um 10,5 milljarða króna. Þetta er leið fyrirtækisins til sátta við notendur búnaðarins sem hafa hótað hóplögsókn en Zoom er sakað um að hafa deilt persónuupplýsingum notenda með Facebook, Google og LinkedIn.

Bandaríski fréttamiðillinn CNN greinir frá. Þá hefur bandaríska alríkislögreglan jafnframt varað við svokölluðum zoom-innrásum (e. zoombombing). Þá er átt við atvik þar sem óboðinn notandi kemst inn á fjarfundi eða í rafrænar kennslustundir. Dæmi eru til um að slíkir notendur hafi þá meðal annars deilt klámfengnu efni á fundunum eða komið öfgafullum skilaboðum til skila. 

Zoom hyggst jafnframt hefja endurbætur á starfseminni og leggja meiri áherslu á öryggi notenda sinna og þær upplýsingar sem fyrirtækið kemst yfir. Þá munu notendur fá tilkynningar eða skilaboð sem auðvelda þeim að hafa eftirlit með hverjir geta séð, vistað eða deilt upplýsingum um þá.

Þeir notendur sem tóku þátt í hóplögsókninni og eru greiðandi meðlimir fengju þá 25 dollara hver eða því sem nemur 15% af áskriftargreiðslu. Þá gætu aðrir notendur fengið allt að 15 dollara endurgreiðslu. Þetta kemur fram í samningum  Zoom og þátttakenda í lögsókninni en þeir bíða nú samþykktar dómara.