Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill bólusetja unglingana áður en skólarnir hefjast

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Delta-afbrigði kórónuveirunnar veldur allt að þrefalt fleiri dauðsföllum hjá óbólusettum en fyrri afbrigði samkvæmt nýjum rannsóknum. Prófessor segir einn Janssen-skammt veita mun minni vörn gegn alvarlegum veikindum en tvo af Pfizer eða Moderna. Hún vill láta bólusetja unglinga sem allra fyrst.

Delta fannst á 17. júní

Ind­verska af­brigði kór­ónu­veirunn­ar, delta, greind­ist fyrst á landa­mær­um Íslands þjóðhátíðardaginn 17. júní. Það voru tveir erlendir ferðamenn á leið úr landi sem greindust, ekki var talin mikil hætta á útbreiðslu og enginn þurfti að fara í sóttkví. Nú, einum og hálfum mánuði síðar, greinist metfjöldi smita á degi hverjum og vöxturinn er sá hraðasti sem við höfum nokkru sinni séð. Öll smitin eru delta. 

„Það er að minnsta kosti tvöfalt meira smitandi. Þar að auki veldur það alvarlegri sjúkdómi og alvarlegri sjúkdómi í yngra fólki heldur en við sáum upprunalega,” segir Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræðum. 

Þrisvar sinnum minni vörn með Janssen

Nýjar erlendar rannsóknir sýna að lungnabólga hjá börnum með delta er tvöfalt algengari og lungnabólga, alvarleg veikindi, sjúkrahúsinnlögn og dauði er tvisvar til þrisvar sinnum algengari hjá fullorðnum, óbólusettum einstaklingum. Ingileif undirstrikar mikilvægi bólusetninganna.  

„Það eru vísbendingar um að hlutleysandi mótefni, þau mótefni sem hindra að veiran geti sýkt frumur, þau séu lægri hjá þeim sem hafa fengið einn skammt af Janssen, heldur en hjá þeim sem hafa fengið tvo skammta af Pfizer eða Moderna,” segir Ingileif. „Menn hafa áhyggjur af því að þau sem hafa fengið bara einn skammt af Janssen, séu ver varðir gegn delta. Það eru almennt lægri hlutleysandi mótefni og lægri gegn delta. Svona þrisvar sinnum lægri.”

Vill láta bólusetja unglingana

Ingileif býst við að það muni koma fram ný og skæðari afbrigði þar til öll heimsbyggðin verði bólusett. Hún mælist til þess að unglingar verði bólusettir sem fyrst. 

„Það er búið að leyfa bæði Pfizer og Moderna fyrir þann aldurshóp. Og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna til dæmis var að endurnýja sínar ráðleggingar í gær, segist hafa farið yfir þær fátíðu aukaverkanir sem hafa verið lýst hjá ungum karlmönnum, og segja að þær séu mjög fátíðar í þessum hópi tólf til fimmtán ára og þeir ráðleggja eindregið að sá hópur sé bólusettur og sem fyrst, áður en skólarnir byrja og áður en börnin hópast saman.”