Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vara við afléttingum á landamærum Bretlands

epa09382584 Travellers arrive at Heathrow Airport in London, Britain, 31 July 2021. Britain is set to open its borders to double jabbed US and EU citizens from 02 August, the UK government has announced.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breskir sérfræðingar vara stjórnvöld þar í landi við afléttingum sóttvarnatakmarkana á landamærum. Í nótt tóku gildi nýjar reglur sem heimila fullbólusettum Bandaríkjamönnum og fólki frá ríkjum Evrópusambandsins að koma til Bretlands án þess að sæta sóttkví.

Nýju reglurnar gilda fyrir fólk sem ferðast frá löndum sem eru appelsínugul á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu. Það þarf nú að sýna fram á neikvætt próf fyrir brottför og fara í skimun ekki seinna en tveimur dögum eftir komuna til landsins, en reglur um sóttkví falla niður. Þeim sem koma frá rauðmerktum löndum ber áfram að sæta tíu daga einangrun á sóttkvíarhóteli, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki. 

Reglurnar um bólusetta ferðamenn verða áfram harðari í Bretlandi en þær eru hér á landi. Hér þurfa þeir aðeins að sýna fram á neikvætt PCR-próf eða hraðpróf við komuna til landsins, hvaðan sem þeir koma. Því skilyrði var bætt við 27. júlí eftir að ferðatakmörkunum um bólusetta ferðamenn hafði verið aflétt.

The Guardian hefur eftir Rowland Kao, smitsjúkdómasérfræðingi við Edinborgarháskóla, að með því að hætta að skylda bólusetta ferðamenn í sóttkví bjóði stjórnvöld hættunni heim. Veiran komist auðveldlega inn í landið og geti smitast hratt milli fólks innanlands. Þetta sé sérstaklega áhættusamt í ljósi þess að þótt bólusettir veikist síður af COVID-19 séu þeir enn líklegir til að bera veiruna, sérstaklega stökkbreytt afbrigði hennar, og því gæti orðið erfitt að uppræta nýja bylgju. Hann hvetur stjórnvöld til þess að seinka afléttingum á landamærum. 

Þá er haft eftir öðrum, Michael Head hjá Southampton-háskóla, að sennilega væri réttast að skima ferðamenn daglega fyrstu dagana eftir komuna til landsins. Peter Openshaw hjá Imperial College London segir hins vegar við Guardian að reglubreytingin sé eðlilegt næsta skref, en með henni sé vissulega tekin áhætta vegna þess hversu lítið er vitað um smit bólusettra. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV