Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útgöngubann framlengt í Brisbane og næsta nágrenni

epa09386435 A family queues up for a COVID-19 test in Brisbane, Queensland, Australia, 02 August 2021. Brisbane and other SEQ local government areas are currently in lockdown due to a growing COVID-19 cluster.  EPA-EFE/DAN PELED AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Áströlsk yfirvöld hafa ákveðið að framlengja útgöngubann í Brisbane og nærliggjandi héruðum í suðausturhluta Queensland. Aflétta átti banninu á þriðjudagsmorgun en það verður framlengt fram á næsta sunnudag.

Heilbrigðisyfirvöld óttast að enn kunni að leynast ógreind smit á svæðinu og hvetja almenning til að fara í sýnatöku. Þrettán ný smit greindust í Queensland í gær en daginn áður voru þau níu.

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison segir minni líkur á að grípa þurfi til skyndilegs útgöngubanns þegar bólusetningarhlutfall nær sjötíu af hundraði. Hann gerir ráð fyrir að það náist fyrir árslok en nú eru 19% bólusett. 

Sjötta vika útgöngubanns er að hefjast í Sydney, stærstu borg Ástralíu, en þar hafa greinst næstum 3.500 ný smit undanfarnar vikur. Um þrjú hundruð óvopnaðir hermenn hefja í dag mánudag, eftirlit með því að íbúar borgarinnar fylgi reglum um útgöngubann í hvívetna. 

 

Fólki er óheimilt að yfirgefa heimili sitt nema til þess að versla, sinna umönnun annarra eða stunda nauðsynlega hreyfingu.

Engum er heimilt að fara lengra en tíu kílómetra að heiman. Margt bendir til að smit berist einmitt milli fólks á þessum leyfilegum ferðum samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda.