Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umferð á Suðurlandi farið rólega af stað

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Viðbúið er að margir verði á faraldsfæti í dag, og eins og venjulega um verslunarmannahelgi mun straumurinn að líkindum liggja til höfuðborgarsvæðisins, bæði að sunnan og norðan.

Margir dvöldu á Akureyri um helgina en hjá lögreglunni þar fengust þær upplýsingar rétt fyrir hádegi að umferðin væri ekki tekin að þyngjast að ráði enn sem komið er, en að lögregla mundi bæta í eftirlit á þjóðvegum eftir því sem liði á daginn. En Suðurland var ekki síður vinsæll áfangastaður um helgina.

Umferð hefur varið rólega af stað eftir Verslunarmannahelgi að sögn Þorsteins M. Kristinssonar varðstjóra hjá Lögreglunni á Suðurlandi. Rætt var við Þorstein í beinni útsendingu í hádegisfréttum.

„Það er eitthvað um að fólk sé farið af stað en það er ekkert sérstaklega þung umferð enn sem komið er. Það má alveg búast við því að hún þyngist með deginum, þetta fer rólega af stað,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn segir lögreglan muni viðhafa öflugt umferðareftirlit í dag eins víða og hægt er. „Það verður mjög sýnilegt eftirlit hjá okkur í allan dag. Það er byrjað og við bætum í og verðum á ferli.“

Hann segir umferð þá hafa gengið nokkuð vel um helgina. Álagið sé þó allt öðruvísi en í venjulegu árferði. Umferðin dreifist meira en venjulega þar sem að minna er um mjög fjölmenna áfangastaði um Verslunarmannahelgi.
 

Andri Magnús Eysteinsson