Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þrjú ný kórónuveirusmit á Grænlandi

Mynd með færslu
 Mynd: KNR/Mette Kristensen
Enn fjölgar kórónuveirusmitum á Grænlandi. Þrennt greindist með COVID-19 í gær og því eru alls fjörutíu og fjögur smituð í landinu.

Grænlenska ríkisútvarpið greinir frá þessu og að tvö smitanna séu í sama sveitarfélaginu þar sem nú eru þrettán með COVID-19.

Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi á laugardagskvöld sem fela í sér að dregið er úr fjöldatakmörkunum á kaffihúsum og veitingastöðum auk þess sem dregið er úr grímuskyldu á opinberum stöðum.

Sums staðar í landinu er þó skylt að bera grímu og fjöldatakmarkanir með tuttugu manna hámarki gilda enn.

Til að mega sækja opinbera staði þarf fólk að vera bólusett eða geta sýnt neikvætt kórónuveirupróf sem ekki má vera eldra en tveggja sólarhringa gamalt.

Tæplega 26 þúsund Grænlendinga teljast fullbólusett og um 36 þúsund hafa fengið fyrstu sprautu. Enginn hefur dáið af völdum COVID-19 í landinu.