Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rólegheit í Vestmannaeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Aðfararnótt frídags verslunarmanna var óvenju kyrrlát í Vestmannaeyjum, annað árið í röð. Lögreglan í Vestmannaeyjum sagði þó nokkuð af fólki í eynni, en allt hefði gengið vel þrátt fyrir samkomur í heimahúsum.

Í venjulegu árferði hefði hápunktur Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum verið í gærkvöld og í nótt, en sóttvarnaraðgerðir setja strik í hátíðarhöldin annað árið í röð. Brekkusöngurinn var fluttur í streymi á netinu og margir reyndu að fanga stemminguna með skemmtunum í heimahúsum.

„Það var nokkuð um fólk sem tjaldaði í görðum hjá vinum og vandamönnum, en allt gekk vel og þetta voru bara rólegheit. Engin útköll hjá okkur í nótt“ sagði lögreglan í Vestmannaeyjum við fréttastofu. 

Þjóðhátíðanefnd hefur ekki gefið upp vonina um að hægt verði að halda Þjóðhátíð með hefðbundnara sniði í Herjólfsdal síðar í sumar. Nefndin hefur sagt að upplýst verði um hvort, hvenær og með hvaða sniði hátíðin yrði haldin, í síðasta lagi þann 14. ágúst.

„Þjóðhátíð er gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir barna- og unglingastarf ÍBV og er ein ástæða þess að félagið getur haldið úti jafn öflugu starfi í litlu samfélagi og raun ber vitni. Það er okkar trú að hægt verði að halda hátíðina í einhverri mynd síðar í sumar“ segir í tilkynningu Þjóðhátíðarnefndar.