Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Noregur: Andlát í heimahúsi rannsakað sem morð

02.08.2021 - 02:44
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Olsen/NTB
Lögreglan í Ósló rannsakar nú andlát litháensks manns á sextugsaldri sem morð. Talið er að maðurinn hafi verið myrtur í heimahúsi í Fjellhamar, kyrrlátu hverfi í sveitarfélaginu Lørenskog skammt frá Ósló.

Norska ríkisútvarpið greinir frá þessu en atburðinn varð í gærkvöld. Lögregla handtók þegar sex manns sem grunuð voru um að hafa orðið manninum að bana en fimm voru látin laus að loknum yfirheyrslum.

Grunur beinist sterklega að sjötta manninum, Pólverja á fimmtugsaldri, sem var gestkomandi í húsinu. Lögregla fór fram á gæsluvarðhald yfir honum sem hann féllst á en hann hefur ekki viðurkennt að hafa orðið manninum að bana.

Gunhild Lærum, verjandi mannsins segir hann hafa fengið áfall og að hann muni lítið hvað gerðist. Unnið er að vettvangsrannsókn sem leiða á í ljós hvað gerðist í húsinu.

Ekki hefur enn tekist að tilkynna fjölskyldu hins látna um örlög hans en lögregla vinnur náið með sendiráði Litháens við ná sambandi við hans nánustu.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV