Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikill jarðskjálfti undan ströndum Indónesíu

02.08.2021 - 06:41
epa09376008 A motorist drives past a closed beach access in Kuta, Bali, Indonesia, 29 July 2021. Indonesian authorities extended restrictions on emergency community activities (PPKM) until 02 August 2021.  EPA-EFE/MADE NAGI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Jarðskjálfti af stærðinni 5,9 reið yfir undan austurströnd Indónesíu í nótt. Að því er fram kemur í tilkynningu frá Jarðeðlisfræðistofnun Bandaríkjanna hefur hvorki verið gefin út flóðbylgjuviðvörun fyrir svæðið né borist tilkynningar um tjón af völdum skjálftans.

Upptök skjálftans eru á tólf kílómetra dýpi um 180 kílómetra norðaustur af borginni Tual á Kei-eyjum. Þeir jarðskjálftar sem eiga upptök sín grunnt í jarðskorpunni eru líklegri til að valda tjóni en þeir sem dýpra liggja.

Jarðskjálftar eru algengir í Indónesíu enda er eyríkið innan Kyrrahafseldhringsins svokallaða þar sem hátt hlutfall jarðskjálfta og elgosa heimsins verður.

Í janúar fórust yfir eitthundrað í jarðskjálfta af stærðinni 6.2 á Sulawesi-eyju, sem lagði byggingar í borginni Mamuju í rúst. Fyrir þremur árum varð flóðbylgja í kjölfar jarðskjálfta á Palu yfir 4.300 manns að bana. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV