Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Mig dreymir ekki um að vinna“

Mynd: Elvar Freyr Pálsson / Elvar Freyr Pálsson

„Mig dreymir ekki um að vinna“

02.08.2021 - 12:00

Höfundar

„Ég á mér ekki draumastarf. Mig dreymir ekki um að vinna. Þessi orð enduróma nú á YouTube, TikTok og öðrum miðlum, en þetta er slagorð #antiwork, eða andvinnuhreyfingarinnar. Hreyfingar sem á upptök í sín í því hvað allir eru búnir að þurfa að hanga mikið heima síðastliðið eitt og hálfa árið,“ segir Snorri Rafn Hallsson.

Snorri Rafn Hallsson skrifar:

Ungt fólk sem áður tók þátt í höstl-menningu Vesturlanda þar sem allt kapp er lagt á að vinna sem mest til að ná sem lengst hafði skyndilega lítið fyrir stafni og leitaði því lífsfyllingar annars staðar en í vinnunni. Tók upp ný áhugamál, fór að skapa, gera eitthvað annað úr sér. Því þegar allt kemur til alls, hvað erum við annað en það sem við gerum?

Andvinnuhreyfingin er ekki á móti vinnu sem slíkri. Auðvitað eru alls konar verkefni sem þarf að vinna að, fólk sem þarf að sinna, svæði sem þarf að viðhalda og hlutir sem þarf að framleiða. Það heldur því enginn fram að við ættum öll að leggjast í leti og gera ekki neitt, heldur eigum við að vinna til að lifa en ekki öfugt. Þrátt fyrir að samfélagið segi annað, þá er ekkert að því að vilja ekki endilega eiga einhvern glæstan feril, fullt af pening og hafa betur í lífsgæðakapphlaupinu. Andvinnuhreyfingin reynir því að afmiðja vinnuna í tilverunni, sjá vinnu sem leið að markmiði frekar en markmiðið sjálft, lifa lífinu utan vinnunnar frekar en í henni og í gegnum hana. Vinna er orðin að svo miklu meira en bara vinnu og hún mótar hugsun okkar, samfélag og ekki síst sjálfsmynd okkar. En er það ekki eitthvað sem við ættum að setja spurningarmerki við?

Við vinnum ekki bara til að afla okkur tekna, heldur er það í vinnunni sem við ræktum hæfileika okkar, raungerum möguleika okkar og setjum mark okkar á heiminn. Frá unga aldri erum við spurð hvað við ætlum að verða þegar við erum orðin stór og við svörum samviskusamlega með starfsheitum: kennari, kappakstursbílstjóri, læknir, lögga, smiður, forstjóri. Og svo þegar við erum orðin stór og farin að gera það sem við ætluðum okkur að gera, nú eða eitthvað allt annað, þá erum við það sem við gerum. Í vinnunni. Allt annað er aukaatriði, tilfallandi, hobbí.

Það er ekki bara sjálfsmyndin sem grundvallast á vinnu með þessum hætti heldur er það tilveran öll svo að segja. Vinna er uppspretta lífsfyllingar og sjálfstrausts, öryggis og farsældar. Ef þér gengur vel í vinnunni og líður vel í vinnunni, þá ertu svolítið bara kominn með þetta. Það skiptir því miklu máli að velja sér starfssvið við hæfi, mennta sig rétt, klífa upp metorðastigann og leggja hart að sér til að ná árangri í starfi. 

Svona er draumastarfið lykillinn að hamingjunni, farsældinni, vellíðan, lífinu. Einu sinni var sagt að maður ætti að gera það sem maður elskar og þá þyrfti maður aldrei að vinna stakan dag á ævinni. En það er ekki á allra færi. Suma langar bara alls ekkert til vinna við það sem þeir elska, aðrir fá aldrei tækifæri til þess og svo eru það þeir sem fá jú að gera það sem þeir vilja en upplifa að vinnan spillir gleðinni. Því hefur mantran snúist við: Elskaðu það sem þú gerir, samsamaðu þig fyrirtækinu sem þú vinnur fyrir, lifðu eftir gildum þess og þá muntu aldrei þurfa að vinna stakan dag á ævinni. 

En draumastarfið er draumsýn. Hin hliðin á peningnum er nefnilega sú að ef það gengur illa í vinnunni, starfsandinn er slæmur og álagið mikið þá vegur það þungt á fólki. Þess vegna birtast okkur greinar á atvinnulífssíðum fréttamiðla sem veita góð ráð svo stressið skemmi ekki sumarfríið, eða kenna okkur að koma röð og reglu á lífið heima fyrir svo við getum staðið okkur betur í vinnunni. Vinnan smitar þannig út frá sér, hvort sem það er vinnugleðin eða vinnuálagið og án vinnu erum við eiginlega ekki fullgildir meðlimir samfélagsins, vitum ekki hvað við eigum að gera við okkur. Enda sýna rannsóknir að þeir sem ekki vinna á því skeiði lífsins sem ætlast er til að fólk sé í vinnu, upplifa jafnan neikvæðar tilfinningar í eigin garð og almennt tilgangsleysi. 

Ef einhver þarna úti er enn þá að velta því fyrir sér hver tilgangur lífsins er, þá er svar nútímans: Að vinna. Hvort sem þér líkar það betur eða verr. Með því að grafa undan hugmyndinni um draumastarfið segir andvinnuhreyfingin að svona þurfi þetta ekki að vera. Og svona hefur þetta alls ekki alltaf verið. Segjum að hingað væri kominn tímaflakkari frá Grikklandi til forna. Það kæmi honum ansi spánskt fyrir sjónir að frétta að allir ríkustu menn heimsins væru í vinnu. Jeff Bezos er stjórnarformaður Amazon, Mark Zuckerberg rekur enn þá Facebook og Elon Musk er forstjóri Tesla, þó reyndar hafi hann nýlega viðurkennt að honum líkaði ekki djobbið, spurning hvort hann verði bráðum bara rugludallur í fullu starfi? En hvað sem því líður þá myndi tímaferðalangnum okkar finnast þetta algjörlega óhugsandi ástand. Af hverju í ósköpunum myndi nokkur manneskja sem hefði bókstaflega allt til alls kjósa að þræla sér út í vinnu? 

Þetta er furðulegasta þversögn dagsins í dag, allt þetta fólk sem þarf ekki að vinna en gerir það samt. Áður fyrr hefðu þau varið tíma sínum í eitthvað allt annað en að vinna. Ríða út á hestum, láta byggja bókasöfn, halda veislur, láta gott af sér leiða eða bara slaka og lifa og njóta. Ekki vinna.

Það sem nútímahugsun um ágæti vinnunnar í sjálfri sér reynir eftir fremsta megni að bægja frá er sú staðreynd að við hin vinnum vegna þess að við verðum að vinna. Við erum verur af holdi og blóði sem þurfa að eiga í sig og á, rétt eins og ljónin sem veiða sér til matar, refirnir sem búa sér greni. Það er ekkert sér-mannlegt við það, og ganga sumir svo langt að segja að þegar við vinnum þá séum við líkari dýrum en mönnum.

Heimspekingurinn Hannah Arendt greindi virkni mannsins í sundur. Í fyrsta lagi er það vinna, allt sem við gerum til að sinna líkamlegum þörfum okkar, skilur ekkert eftir sig en viðheldur hlutunum eins og þeir eru. Þessi virkni er því algerlega bundin við nauðsyn, náttúruleg ferli og lögmál. Þegar við vinnum erum við animal laborans, vinnudýr, eitt með náttúrunni. En svo er það framleiðslan, þegar við búum eitthvað til. Launavinna nútímans er að stórum hluta svona, við búum til markaðsherferðir, hugbúnað, hátæknivélbúnað, tæki og tól. Allt þetta sem við skiljum eftir okkur og gerir lífið þægilegra og betra, lætur hlutina ganga auðveldar fyrir sig. Að þessu leytinu til erum við mennsk, homo faber, sköpum eitthvað sem er hafið yfir nauðsyn náttúrunnar, en þetta er allt saman fúnksjónal og þannig nátengt nauðsyninni. Markmiðið er gefið fyrir fram og við reiknum út bestu leiðina til að ná því. Líkt og vinna er framleiðsla frekar mónótónísk.

Ef þetta væri allt tónsvið tilverunnar væri illa fyrir okkur komið, það myndi vanta dýptina, yfirtónana sem mynda samhljóminn, fjölbreytileikann, fegurðina. Sem betur fer getur manneskjan verið meira en bara dýr, reiknivél eða framkvæmandi lífvél. En til þess þurfum við að taka stökkið út fyrir hið nauðsynlega, því þar sem nauðsyninni sleppir, þar byrjar frelsið. Við erum frjáls þegar við höfum frumkvæði að einhverju nýju, algjörlega óheftu og óútreiknanlegu, einhverju sem er ekki bundið afkomu eða tæknilegu vandamáli sem krefst lausnamiðaðrar hugsunar heldur hinu óvænta.

Þetta er þriðja svið tilverunnar, vita activa, hið virka líf, er þar sem við sýnum hver við raunverulega erum. Ekki bankastarfsmaður eða stöðumælavörður, ekki kokkur eða hjúkrunarfræðingur, heldur manneskja, einstök og óviðjafnanleg manneskja! Hvað felst í vita activa, hvað þetta frelsi þýðir og hvernig það birtist er engin leið að vita nema að lifa því, að búa það til.

Í heimi sem gengur meira og minna út á vinnu, þar sem vinnan stjórnar lífi okkar og gleypir í sig tímann, þar sem vinna skilgreinir hver við erum og skilyrðir tilvist okkar er lítið pláss fyrir frelsið. 

Þetta unga fólk sem myndar andvinnuhreyfinguna hafnar viðteknum hugmyndum um gildi vinnu og draumastarfsins, þessar manneskjur sem dreymir ekki um að vinna, horfast blákalt í augu við þessa staðreynd og segja: Svona þarf þetta ekki að vera. Við vinnum af því að við þurfum að gera það, en við getum líka gert svo margt annað. Við erum það sem við gerum og við ætlum að vera frjáls.

Vilt þú vera frjáls?