Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Macron í bólusetningarherferð á Instagram og TikTok

Mynd með færslu
 Mynd: Emmanuel Macron - Instagram
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, birti í morgun mínútulangt myndskeið á samfélagsmiðlunum Instagram og TikTok. Í myndskeiðinu hvetur Macron frönsku þjóðina til að bólusetja sig gegn COVID-19. Valið á samfélagsmiðlunum gefur til kynna að markhópurinn sé yngri kynslóðin í Frakklandi en aðeins þriðjungur ungmenna þar í landi,18 til 24 ára, hefur þegið bólusetningu. Vakið hefur sérstaka athygli hve afslappaður klæðaburður forsetans er í myndskeiðinu en hann er klæddur svörtum stuttermabol.

Macron segir í myndskeiðinu að aðeins sé til eitt vopn í baráttunni við veiruna og fjórðu bylgjuna; bólusetning. Hann býður þá fylgjendum og samfélagsmiðlanotendum að senda sér spurningar um bólusetningar. 

„Ég veit að mörg ykkar eru enn efins eða hrædd. Margir hafa fengið rangar upplýsingar eða heyrt ranga orðróma. Gjörið svo vel, spyrjið mig spurninga og ég reyni að svara með sem skýrustum og beinustum hætti, “ sagði Macron í myndskeiðinu. 

Aðeins þriðjungur ungmenna,18 til 24 ára, bólusettur

Nú hafa 42,6 milljónir íbúa í Frakklandi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni en það jafngildir tæplega 64% þjóðarinnar. Rúmlega 35 milljónir íbúa eru þá fullbólusettir. Heilbrigðisráðherra Frakklands hefur vakið athygli á dræmri skráningu ungmenna í bólusetningu. 

 

 

Katrín María Timonen
Fréttastofa RÚV