Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loftslagsaðgerðasinnar lokuðu bönkum

02.08.2021 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: zurich.ch
Loftslagsaðgerðasinnum tókst að valda nokkrum usla í Zurich í Sviss í dag. Á fjórða tug félagsmanna tvennra samtaka, Extinction Rebellion og Climate Strike, tóku sér þá stöðu fyrir utan aðalinngang bankanna UBS og Credit Suisse og meinuðu fólki inngöngu.

Samtökin standa í vikulangri herferð í borginni í því skyni að þrýsta á fjármálafyrirtæki að hætta nýrri fjárfestingu í jarðefnaeldsneyti. Samtökin herja einkum á banka en einnig tryggingafélög, lífeyrissjóði og svissneska seðlabankann.

„Við erum hér þar sem Sviss ber mikla ábyrgð á kolefnislosun,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Ölbu, nítján ára nema frá Zurich. Um tvo tíma tók lögreglu að fjarlægja mótmælendurna.

Bankarnir heita því hins vegar báðir að vera á réttri leið í loftslagsmálum. Talsmaður UBS segir bankann stefna að „kolefnishlutleysi“ árið 2050 og hafi bankinn sett sér áfangamarkmið fyrir árin 2025, 2030 og 2035.

Þá segist Credit Suisse einnig vinna að því að draga úr kolefnisfótspori sínu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV