Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Konur skulu þegja á safnaðarsamkomum“

Mynd: Tengivagninn / Tengivagninn

„Konur skulu þegja á safnaðarsamkomum“

02.08.2021 - 09:00

Höfundar

Í Tengivagninum var litið aftur til fortíðar og rýnt í árþúsundalanga sögu af kúgun kvenna. Melkorka skoðaði tvo kvenhöfunda frá gjörólíkum tímum og gerði samanburð á bókmenntaverkum Simone de Beauvoir og Kristínar frá Pizan

Nú í vor gekk önnur bylgja #MeToo hreyfingarinnar yfir íslenskt samfélag. Í framhaldi af fyrstu bylgjunni, sem hófst í kjölfar fjölda ásakana um kynferðisofbeldi á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein árið 2017, hafa fjölmargar íslenskar konur stigið fram og deilt sögum sínum af ofbeldi, áreiti og misnotkun. Ljóst er að þrátt fyrir þau framfaraskref sem stigin hafa verið í réttindabaráttu kvenna er kynbundið ofbeldi enn rótgróið samfélagsvandamál.

Þegar fengist er við málefni af þessari stærðargráðu er áhugavert að líta aftur til fortíðar, því undirskipun og kúgun kvenna á sér árþúsundalanga sögu. Mig langar að líta á tvö dæmi sérstaklega, tvo kvenhöfunda frá gjörólíkum tímum: Kristínu frá Pizan og Simone de Beauvoir. Sú fyrri fæddist á fjórtándu öld en sú síðari á þeirri á þeirri tuttugustu, en þrátt fyrir þau rúmu fimm hundruð ár sem aðskilja þær í tíma skrifuðu þær báðar um sama hugðarefni, stöðu konunnar í samfélaginu, á merkilega svipaðan hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia

Bókin um borg kvenna

Kristín frá Pizan fæddist árið 1346 og bjó mestan hluta ævi sinnar í Frakklandi, þar sem hún starfaði sem skáld við hirð Karls sjötta Frakkakonungs. Bókin um borg kvenna er ef til vill þekktasta ritverk hennar, en hún kom fyrst út árið 1405. Og þó nú séu liðin meira en sex hundruð ár frá útgáfu bókarinnar á hún merkilega vel við nú á dögum. Inntakið er andsvar Kristínar við þeirri neikvæðu birtingarmynd kvenna sem hún taldi einkenna helstu bókmennta- og heimspekirit sögunnar.

Í Bókinni kynnir Kristín frá Pizan til sögunnar þrjár táknrænar kvenpersónur sem birtast henni í vitrun, en þær bera nöfn þeirra dyggða sem þær holdgera: Skynsemi, Ráðvendni og Réttlæti. Konurnar þrjár fela skáldsagnapersónunni Kristínu að byggja borg kvenna sem eigi að vera þeim sérstakt athvarf og vörn gegn hvers kyns árásum. Bygging borgarinnar er í raun allegóría fyrir samsetningu bókarinnar sjálfrar, þar sem hver byggingareining samsvarar einu dæmi um dyggðuga konu úr menningarsögunni. 

 

Úr Bókinni um borg kvenna:

„En við það að sjá þessa bók, þó hún hefði ekkert áhrifavald, fór ég að velta fyrir mér ástæðu þess að svo margir ólíkir karlmenn, lærðir og ólærðir, séu tilbúnir að segja og skrifa svo margt illt og ásakandi um konur og hegðun þeirra. Og ekki bara einn eða tveir, og ekki bara þessi Matheolus, sem hefur engan sérstakan orðstír og skrifar á háðslegan hátt, heldur almennt virðist svo vera að í öllum fræðiritum tala heimspekingar, skáld og mælskumenn sama máli og komast að sömu niðurstöðu: Að hættir kvenna hallist að og séu uppfullir af öllum mögulegum löstum.“

Mynd með færslu

Með gagnrýni sinni vildi Kristín frá Pizan leggja grunn að nýrri birtingarmynd kvenna í bókmenntahefðinni þar sem framlag þeirra væri bæði viðurkennt og lofað, en í verkinu heldur hún meðal annars fram að konur séu vitsmunalega og siðferðislega jafnar körlum. Á undanförnum áratugum hefur Bókin um borg kvenna vakið athygli sagnfræðinga, sem álíta gagnrýni Kristínar spegla kynjamisrétti dagsins í dag. Þó sú tilhneiging sumra að lofa Kristínu sem „femínista“ eða „fyrstu nútímakonuna“ hafi verið gagnrýnd er markvert að Bókin um borg kvenna beinir spjótum sínum gegn mörgum þeim samfélagsviðhorfum sem vöktu einnig fyrir kvenréttindasinnum á 20.öld.

Simone de Beauvoir og Hitt kynið

Rúmum fimm hundruð og fimmtíu árum frá útgáfu Bókarinnar um borg kvenna voru franska heimspekingnum Simone de Beauvoir svipuð viðfangsefni hugleikin, en með verki sínu Hitt kynið frá 1949 hafði hún mótandi áhrif á femíníska heimspeki.

Mynd með færslu

Úr Hinu kyninu:

„Konan er kölluð „kynið“ til að gefa til kynna að hún birtist karlinum fyrst og fremst sem kynvera: Hann lítur á hana sem kyn, því hlýtur hún að vera það óskorað. Það er út frá karlinum - út frá muninum á henni og honum - sem hún er skilgreind, en hann ekki út frá henni. Hún er aukaatriðið andspænis aðalatriðinu. Hann er sjálfsveran, hann er veruleikinn sjálfur: Hún er Hinn.“

Í Bókinni um borg kvenna kemst Kristín frá Pizan að þeirri niðurstöðu að karlmenn rægi konur í skrifum sínum af margvíslegum ástæðum. Sumir menn ásaki konur fyrir sína eigin lesti, aðrir séu öfundsjúkir, sumir hafi hreina unun af rógburði og enn aðrir endurtaki hreinlega það sem þeir hafi lesið í öðrum bókmenntaverkum. Simone de Beauvoir heldur svipuðu fram, en hún segir suma karlmenn óttast samkeppni frá konum.

Ósanngjörn birtingarmynd kvenna í bókmenntasögunni

Simone de Beauvoir og Kristín frá Pizan vísa einnig báðar í bókmenntasöguna máli sínu til stuðnings. Í Hinu kyninu segir Beauvoir að karlmenn hafi tekið „heimspekina og guðfræðina í sína þjónustu” og að „frá því í fornöld haf[i] ádeiluhöfundar og siðapostular skemmt sér við að draga upp mynd af veikleikum kvenna.“ 

Simone segir hugmyndir helstu hugsuða vestrænnar sögu þannig hafa verið notaðar til að réttlæta undirskipun kvenna í samfélaginu, og vísar til dæmis í heimspekinga klassískrar fornaldar, Platóns sem þakkaði guðunum fyrir að hafa fæðst sem karl en ekki kona og Aristótelesar sem sagði í riti sínu Um skáldskaparlistina: 

„Því einnig kona getur verið góð og jafnvel þræll góður, en þó má ef til vill segja, að konur standi karlmönnum að baki, en þræll sé fyrirlitlegur.“ 
 

Mynd með færslu
Mynd með færslu
Páll Postuli eftir Valentin de Boulogne, 17.öld

Dæmi um slíka umfjöllun um konur eru óteljandi í bókmenntasögunni. Í fyrra Pálsbréfi Biblíunnar segir meðal annars:

„Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar , eins og líka lögmálið segir. En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu.“

Eitt skýrasta dæmið um kvenfyrirlitningu í Biblíunni er sköpunarsaga Gamla testamentisins, en í aldanna rás hefur henni ítrekað verið beitt sem rökstuðningi fyrir upphafningu karlmannsins og fordæmingu konunnar sem uppruna alls ills. Fyrstu kirkjufeðurnir töldu karlmanninn gæddan skynsemi, kominn af Adam, en konuna komna af Evu, á valdi fýsna líkama síns og því sneydda skynsemi. Það var Eva sem tók bita úr forboðna eplinu og átti þannig sökina að syndafallinu.

Kristín frá Pizan og Simone de Beauvoir ákveða báðar að fjalla um sköpunarsöguna og túlka á sinn hátt. Simone de Beauvoir vitnar í orð heilags Tómasar frá Aquino sem fullyrti að konan væri „ófullkominn karl“.

Sköpun Evu væri lýst sem hún væri dregin af beini sem var „ofaukið úr Adam,“ en sú lýsing væri til marks um hvernig trúarbrögð heimsins væru smíðuð af karlmönnum og endurspegluðu drottnunarvilja þeirra.

 

„Þeir sem settu lögin og söfnuðu þeim saman voru karlar og hygluðu með því eigin kyni. Allt það sem karlar hafa skrifað um konur á að taka með fyrirvara vegna þess að þeir eru bæði dómarar og aðilar málsins.“ 

Mynd með færslu

Kristín frá Pizan tekur í sama streng. Hún segir sköpun Evu úr rifi Adams ekki merkja það að hún eigi að vera honum undirgefin eins og þræll, heldur að hann skuli elska hana sem sitt eigið hold. Fengju konur að skilgreina sig sjálfar væri birtingarmynd þeirra í bókmenntahefðinni öðruvísi. Þær bækur sem töluðu niður til kvenna væru svo sannarlega ekki skrifaðar af konum. Á táknrænan hátt virðist slík endurskilgreining einmitt vera markmið Bókarinnar um borg kvenna, sem segja má að sé fyrsta kvennasögusafnið á Vesturlöndum sem auk þess er skrifað af konu.

Kvenlíkaminn sem fangelsi

Auk bókmenntasögunnar einblína Kristín frá Pizan og Simone de Beauvoir báðar á líkamann í skoðun sinni á stöðu konunnar. Þær deila þeirri skoðun að kvenlíkaminn sé veikari að styrk en karlmannslíkaminn, en Kristín heldur því fram að þó líkamar kvenna séu ekki jafnir karlmanna að styrk hafi kynin sömu vitsmunalegu getu. Í Bókinni um borg kvenna gagnrýnir Kristín þá hugmynd að líkami konunnar sé sagður í eðli sínu ófullkominn. Hún segir Guð hafa skapað bæði karlmanninn og konuna í sinni mynd og að sköpunarverk hans geti ekki verið ófullkomið. Hún gengur jafnvel enn lengra og segir að vegna líkamlegs vanmáttar síns séu konur með opnari og skarpari hugsun en karlmenn. Ólíkt Kristínu er röksemdafærsla Simone de Beauvoir ekki byggð á trúarlegum forsendum, en hún segir hugmyndir karlmanna um kvenlíkamann litast af stigveldishugsun. Karlmaðurinn skilji líkama sinn sem í beinu og eðlilegu sambandi við heiminn en segi líkama konunnar stjórnast af kirtlunum, hann sé hindrun, fangelsi.

Mynd með færslu
 Mynd: studiointernational.com - Adam og Eva, eftir Jan og Hubert
Adam og Eva eftir flæmsku málarana Jan og Hubert van Eyck. Smáatriði úr Ghent-altaristöflunni, frá árinu 1432.

Ómögulegt að leggja mat á miðaldahöfund á forsendum nútímans

Ljóst er að þrátt fyrir þær rúmu fimm aldir sem skilja verkin að í tíma hafa Bókin um borg kvennanna eftir Kristínu frá Pizan og Hitt kynið eftir Simone de Beauvoir marga sameiginlega fleti. Báðar beina þær sjónum sínum að líkamlegum mismun kynjanna, birtingarmynd kvenna í bókmenntasögunni, túlkunum á sköpunarsögu Biblíunnar og jafnri hæfni karla og kvenna til náms. Verkin eru þó einnig ólík, því þrátt fyrir að Beauvoir og Kristín séu sammála um jafna vitsmuni kynjanna og ósanngjarna birtingarmynd kvenna í menningarsögunni inniheldur Bókin um borg kvennanna einnig afturhaldssamari fullyrðingar um eðli og hlutverk konunnar, til dæmis að frá náttúrunnar hendi eigi hún að vera „einföld, hljóðlát og heiðarleg.“ Réttmætt hlutverk hennar sé eftir allt saman að vera undirgefin eiginmanninum: 

Mynd með færslu

 

 

„Og þið, giftar konur, skulið ekki gremjast yfir því að vera undir eiginmönnum ykkar komnar, því að stundum er það ekki manneskjunni fyrir bestu að vera frjáls.“ 

 

Eftir allt sem á undan er gengið slær þessi setning mann svolítið út af laginu. Það er þó nauðsynlegt að hafa í huga vandkvæði þess að leggja mat á miðaldahöfund á forsendum nútímans, því Bókin um borg kvenna er barn síns tíma, skrifuð í upphafi fimmtándu aldar. Mótsagnakenndar fullyrðingar Kristínar um stöðu konunnar í samfélaginu hafa vakið gagnrýni margra femínískra fræðimanna, en aðrir segja það tímaskekkju að nálgast verk Kristínar á slíkum forsendum.

#MeToo hreyfingin hefur hvatt fólk til að líta í eigin barm og endurskoða fortíð sína og samskiptamynstur. Orð eins og gerendameðvirkni, gaslýsing og skrímslavæðing heyrast víða, og það er augljóst að við eigum langt í land, þó margt hafi áunnist. Til þess að skýra betur fyrir okkur hvert við stefnum er gott að minnast þess hvaðan við komum.

Pistilinn má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.
Leiklestur: Hólmfríður Hafliðadóttir, Sigurður Ingvarsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir.
Tónlist í upphafi: Iðunn Einarsdóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: The New Yorker

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vitleysan er sannleikanum samkvæm

Bókmenntir

Hélt að hvíld væri leti og ómennska

Menningarefni

Er heimsendir í nánd?

Pistlar

Barnfóstra og götuljósmyndari