Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hópslagsmál og ölvunarakstur í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Nokkur erill var hjá lögreglunni á Akureyri sem og á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Tilkynnt var um hópslagsmál og voru margir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.

Lögregla var kölluð til þegar hópslagsmál brutust út í miðbæ Akureyrar í nótt. Fjórir gistu fangageymslur og hefst rannsókn málsins í dag. Enginn er alvarlega slasaður að sögn lögreglu. Töluvert rólegra var í nótt á tjaldsvæðum bæjarins, en mikið var um ölvun og læti þar í fyrri nótt.

Í höfuðborginni voru sjö bifreiðar stöðvaðar síðastliðna nótt, þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna. Tveir voru sviptir ökuréttindum en nokkrir voru við akstur án ökuréttinda. Einn var vistaður í fangageymslu vegna gruns um sölu og vörslu fíkniefna er fram kemur í dagbók lögreglu.

Mikið var um COVID-19 sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, en engir voru á Norðurlandi eystra.