Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hálendisvakt styttir viðbragðstíma

02.08.2021 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglumenn á Norðurlandi eystra fara í nokkrar ferðir á sumrin og dvelja í þrjár til fjórar nætur í Drekagili. Svo virðist sem nærvera löggæslumanna dragi úr utanvegaakstri. Virk löggæsla styttir viðbragðstíma þegar slys verða.

 

Fimm lögreglustöðvar heyra undir embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra sem nær frá Siglufirði í vestri til Bakkafjarðar í austri. Í kjölfar eldgossins í Holuhrauni sumarið 2014 sinnti lögreglan gæslu á hálendinu. Frá 2016 var ákveðið að fara í lengri ferðir og dvelja lengur á hálendinu.   
  
„Dveljum í einhverjar nætur og förum nokkrar ferðir yfir sumarið. En svo núna aftur í 2-3 síðustu sumur er það orðið þannig að við förum í 5-6 túra yfir sumarið og dveljum 3-4 nætur á hálendinu í hverjum túr í Drekagili við Öskju,“ segir Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Mikil umferð á hálendinu í fyrra kom á óvart en hún hefur verið meiri í ár. Eitt verkefna lögreglunnar er að ræða við ökumenn og veita þeim leiðbeiningar.

„Hvert einasta spjall endar með því að við erum orðin svona upplýsingabanki fyrir ferðalangana,“ segir Hreiðar.

„Til viðbótar náttúrulega er þarna náttúrlega virk löggæsla. Það er styttri tími að sinna því sem upp kemur og lögreglumenn og aðrir læra einfaldlega á þetta svæði og átta sig á því hvers konar flæmi þetta er og tímalengdirnar í að koma sér á milli staða.“
 
Utanvegaakstur hefur verið vandamál á undanförnum árum. „Við þekkjum alveg utanvegaakstursmál í fréttum liðinna ára, bara ljót brot og vítaverð. Allt þetta sem við erum að gera leiðir til þess að það dregur úr þessu. Fólk er miklu meðvitaðra um það sem það er að gera og fær þarna leiðbeiningar. Ef eitthvað er sýnist okkur frekar að það dragi úr svona ljótum utanvega akstursbrotum þó þau komi alltaf upp annað slagið.“

Nærvera lögreglunnar tryggir styttri viðbragðstíma. Flest slysin eru minniháttar. „Það er nú ekki langt síðan að það þurfti að sinna hérna manni sem týndist norðvestan vert í Öskju fyrir um tveimur vikum síðan, hann var mjög hætt kominn.“