Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Breiðablik upp í þriðja sæti eftir stórsigur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Breiðablik upp í þriðja sæti eftir stórsigur

02.08.2021 - 21:10
Breiðablik vann í kvöld 4-0 stórsigur gegn Víkingum frá Reykjavík í efstu deild karla í knattspyrnu. Liðin voru fyrir leik kvöldsins í öðru og fjórða sæti deildarinnar og var því búist við jöfnum og spennandi leik.

Víkingar byrjuðu af krafti og einungis nokkrum sekúndum eftir að Erlendur Eiríksson dómari hafði flautað leikinn á voru gestirnir komnir í fínt færi þar sem Helga Guðjónssyni brást bogalistin.

Það var eftir 34 mínútna leik sem að fyrsta markið leit dagsins ljós. Mosfellingurinn efnilegi Jason Daði Svanþórsson kom þá skoti á mark Víkinga sem sigldi framhjá Þórði Ingasyni og í fjærhornið. Örfáum mínútum síðar bætti Jason Daði við öðru marki sínu og kom heimamönnum í 2-0 forystu. Þórður Ingason hafði þá varið aukaspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar út í vítateiginn þar sem Jason Daði kom askvaðandi og fylgdi á eftir, staðan í hálfleik á Kópavogsvelli 2-0.

Á fyrstu mínútum seinni háflleiks skoruðu Blikar í þriðja sinn. Miðvörðurinn Viktor Örn Margeirsson stangaði þá fyrirgjöf Höskuldar í fjærhornið og neyddist markvörður Víkinga að sækja boltann í netið í þriðja sinn í leiknum.

Jason Daði var þó ekki búinn að segja sitt síðasta því á fimmtugustu og fimmtu mínútu leiksins skallaði hann eigið frákast fyrir Gísla Eyjólfsson sem gat ekki annað en komið boltanum yfir línuna.

Blikar unnu því öruggan 4-0 sigur og fá í sinn hlut stigin þrjú. Stigin eru kærkomin í baráttunni í efri hluta deildarinnar en með sigrinum færast Blikar uppfyrir KR-inga og sitja nú í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig, þremur stigum á eftir Víkingum og eiga leik til góða. Valur er sem fyrr á toppi deildarinnar með 30 stig.