Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Angus nautgriparækt til að bæta samkeppnisstöðu

02.08.2021 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrsti kálfurinn sem fæðst hefur hjá bónda á Íslandi eftir að fósturvísir var settur í staðgöngukú er að komast á legg. Kálfurinn sem er af Aberdeen Angus-kyni verður ræktunargripur í Kjósinni. Framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands segir að ræktun slíkra gripa muni bæta samkeppnisstöðu  Íslands í nautakjötsframleiðslu.

Fósturvísir var fluttur frá einangrunarstöðinni að Stóra-Ármóti og í kjósina og settur þar í staðgöngumóður af íslenska kúakyninu. 
Kálfurinn er nú tæplega hálfs árs. Sigurbjörn Hjaltason bóndi á Kiðafelli kveðst hafa farið út í þetta til að auka afurðir frá hverjum grip í nautakjötsframleiðslunni ásamt að forðast of mikla skyldleikarækt. 

Fyrir er hann með nautgripi sem eru af Galloway-kyni af stofni sem var til í Gunnarsholti. Þörf var á nýju erfðaefni inn í ræktunina. Fósturvísar af Angus-kyni voru fluttir frá Noregi og austur að Stóra-Ármóti þar sem einangrunarstöðin í Angus-nautgriparækt er til húsa með sérstöku leyfi. Hreinir Angus-gripir fæddust þar og fósturvísarnir sem nú fara á íslenska sveitabæi eru út af því rannsóknarverkefni.

Allt að tíu kálfar hafa fæðst eftir fósturvísaflutning eftir að fyrsti kálfurinn kom í heiminn í Kjósinni. Baldur Sveinsson bústjóri á einangrunarstöðinni að Stóra-Ármóti segir ræktunina þar einskorðast við Angus gripi til kjötframleiðslu. Íslenska kýrin sé ekki í hættu.  

Sveinn Sigurmundsson er framkvæmdastjóri  Búnaðarsambands Suðurlands 
Hann hefur ekki áhyggjur af íslensku kúnni. Bændur geti verið með einhverja blendingsrækt til að framleiða  nautakjöt en þeir myndu ekki gera það til að framleiða mjólkurkýr vegna þess að Aberdeen Angus kynið mjólki mun minna en íslenska kýrin.

„Hugmyndafræðin í þessu er að vera með hjörð af hreinræktuðum Aberdeen Angus kúm og svo flytjum við inn erfðaefni frá Noregi það besta sem völ er á hverju sinni og fáum þar með aðgang að ræktunarstarfi Norðmanna. Þetta er komið til að vera."

Ólöf Rún Skúladóttir